Leita í fréttum mbl.is

Pínulítið málfræðituð

 

Mér er oftast sama þó mýs finnist í brauði í útlöndum, en ég rak augun í að fréttaritari skrifar "brauðhleifinni" og mér steinhætti bara að vera sama.  Þetta gerði hann ekki einu sinni heldur tvisvar sinnum!

http://www.mbl.is/mm/folk/frettir/2009/06/10/mus_fannst_i_maltbraudi/ 

Hleifur er karlkyns orð en ekki kvenkyns. 

Hleifur, hleif, hleif/hleifi, hleifs  --  Hleifurinn, hleifinn, hleifnum, hleifsins

Það er ekki -hleifinni!


Lúkasinn ársgamall.

Það er við hæfi nú á ársafmæli Lúkassins að fólk missi sig í móðursýki yfir drápi á einhverju dýri.  Lúkas II er í uppsiglingu... eða orðinn.  Ég óska því öllum sem hafa misst sig yfir dauða ísbjarnarins til hamingju með afmælið og viðbrögð við hæfi á þessum tímamótum.  Devil

Persónulega þykir mér verst að grey dýrið hafi ekki náð, ært af hungri, að vaða til byggða inn á einhverja leikskólalóð og kjammsað á einhverju 5 ára barni.  Það er hvort sem er svo mikið til af þeim.  Hann hefði ekki haldist við lengi til fjalla, þar sem fjallaselirnir allir eru flognir til kaldari landa yfir sumarið.  Það er samt alveg hugsanlegt að einhver fjallagarpurinn hefði lagt leið sína í veg fyrir ísbjörninn og orðið honum (ísbirninum) til lífsviðurværis eitthvað lengur.  Svo að sjálfsögðu er það hræðilegt að hafa endað hugsanlega farsælar hörmungar dýrsins svona snögglega.

Annars er víst umdeilt hvort ísbirnir séu í svo mikilli útrýmingarhættu og hafa verið sögð "viðkvæm" tegund, sem fylgjast þarf með.  Það er stutt síðan þeir voru settir á listann sem er aðeins meira en viðkvæm tegund og það eiginlega vegna hugsanlegrar fækkunar dýra vegna hnattrænnar hlýnunar.  Í umfjöllun um skráningu ísbjarnarins á þennan lista er þó tekið fram að áður í sögunni hafi orðið hnattræn hlýnun og ekki orðið (augljóslega) tegundinni til útrýmingar og staðreyndin sé sú að allar bjarndýrategundir hafi sýnt sig hafa mikla aðlögunarhæfileika (þó ég fari ekki nákvæmlega í þá umfjöllun og dæmi).


mbl.is Ísbjörninn felldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæst bylur í tómri tunnu?

Núna áðan heyrði ég endursýningu á úrslitum Laugardagslaganna frá í gær.  (Nennti ómögulega að horfa).  Það er talað við eitthvað af fólki úr hópunum sem lenti í þremur efstu sætunum.  Þá tók ég eftir að Friðrik Ómar segir:  "Mig langar bara til að segja að stundum bylur hæst í tómri tunnu".

Skilur einhver hvað maðurinn átti við?  Ætli hann viti hvað máltækið þýðir?  Ég man ekki betur en að það þýði að mest fari fyrir heimskum, ómerkilegu, innihaldsrýru eða vitni um hroka eða mont.  Á Friðrik við að þau Regína séu heimsk, hrokafull eða montin, lagið sé innihaldsrýrt og ómerkilegt og þau unnu náttúrulega og þar með hæst, háværust?  Ég trúi ekki að hann hafi verið að segja þetta um sig og sína félaga ef hann veit hvað þetta þýðir.

Nú ef Friðrik veit hvað máltækið þýðir.  Var þetta þá meinlegt skot á Barða með tilvísun í bumburnar (tunnurnar) í laginu hans?   Jæja, hvort sem er þá gerir hann lítið úr þeim sem þetta á við.  Hann var ekki í miklu áliti hjá mér fyrir, en það minnkaði all verulega.  Nú leiðist mér enn meir að hann skuli fara sem fulltrúi Íslands í Eurovision-keppnina.


Í alvöru?!

Ég var ekki viðstödd og get því ekki dæmt um hvort rétt er með farið.

"Mótmælendur höfðu enda hátt við ráðhúsið í hádeginu og hrópuðu „hættið við" og létu sírenur hljóma. Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, upphóf mikið lófatak er hann kom til ráðhússins og fylgdu mótmælendurnir honum á fund borgarstjórnar. "

En mér finnst þetta eitthvað undarlegt, ótrúlegt.  Það má svo sem vera að Dagur hafi klappað með ungliðum þegar hann gekk til ráðhússins, en að hann hafi upphafið mikið lófatak hljómar eins og úr vísindaskáldsögu fyrir mér.  Einhver frá plánetunni zorglúbb með 14 hendur gæti kannski upphafið mikið lófatak, svona einn og sér, en ekki Dagur.

.... Jah, nema eitthvað varðandi hans uppruna hafi farið framhjá mér.

Shocking


mbl.is „Sýnir sterka stöðu fráfarandi meirihluta"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringlandaháttur.

Óttalegur hringlandaháttur er þetta með borgina.  Hvaða stjórn verður svo á morgun eða hinn?  Nú ef svo Ólafur leggst veikur aftur - Margrét kemur aftur inn.  Þá verður REI-listinn aftur inn, því ekki styður Margrét Vilhjálm og félaga og ekki Frjálslynda var það?  Svo hressist Ólafur aftur og aftur fara þeir Villi í eina sæng (þó Ólafur hafi fyrir ekki svo löngu síðan haft ófögur orð um hnífsstungur í bakið og annað óskemmtilegt frá sjálfstæðismönnum til handa honum).

Þetta er ein hringavitleysa.  Og á svo maðurinn að verða borgarstjóri - "með allt þetta atkvæðamagn að baki"?  Það held ég að stólagræðgi, höfðingjasleikjuháttur og önnur sveitamennska Íslendinga eigi eftir að gera okkur að athlægi heimsbyggðarinnar núna.  Tekur einhver mark lengur á þessu fólki?


Brókarsjóðurinn.

Það kviknaði hjá mér hugmynd um daginn þegar ég rakst á skrif um STEF-gjöld og útfærðist hún lítillega í umræðum við þau skrif.  Það væri nú kannski leið til að jafna launamun kvenna og karla að nota STEF-gjaldaaðferðina.  Nú er verið að leggja lagafrumvarp fyrir þing sem miðar að því að koma einhverju skikki á þetta mál.  En við vitum að litla sveitalega íhaldssama þjóðin á norðurhjara veraldar mun ekki samþykkja neinar breytingar í þessa átt og að það virka ekki almenn markaðslögmál á þessu landi.  Því tel ég að ráð sé að nota eitthvað sem virkar nú þegar.

Það svínvirkar hjá STEF að safna í feita sjóði með því að taka ákveðnar upphæðir af hverjum einasta geisladisk, myndbandsspólu og mp3-spilara sem seldur er.  Feitu sjóðirnir eru ætlaðir sem bætur fyrir meint brot á höfundarrétti sem hugsanlega er hægt að fremja með varningnum.  Það væri aldeilis hægt að nota þetta módel til að safna í sjóði og bæta konum launaskerðinguna sem þær verða fyrir vegna þess að þær eru konur.  Reyndar ekkert hugsanlegt þar, launamunurinn er staðreynd.

Það má setja fast gjald á allar nærbuxur með buxnaklauf, til dæmis 800 kr. og 300 kr. á allar nærbuxur merktar Spiderman, Batman, Superman eða aðrar teiknimyndahetjur.  2000 kr. skatt á alla skó af stærð 41 og stærra, (konur sem nota svona stóra skó fórna sér bara fyrir málstaðinn).  Þessi gjöld myndu svo renna í Brókarsjóðinn og úr honum yrði úthlutað til kvenna þegar þær eru farnar að vinna og fengi hver kona mismun launa milli sín og karlmanns í sama/sambærilegu starfi.  Með tíð og tíma má svo auka gjaldtökuna og setja gjöld á fleiri karlmiðaðar vörur.


Upplýstir þjófar.

Mér er algerlega fyrirmunað að skilja hverju auglýsingar um að þjófnaður varði við lög og verði kærðir eiga að skila.  Þetta vita allir.  Líka fólk í öðrum löndum.  Þjófnaðir eru alls staðar ólöglegir.  Þess vegna til dæmis hafa þjófar tilhneigingu til að fremja glæpinn svo aðrir sjái ekki til.  Viljum við að þjófarnir dáist að einstakri greind okkar þar sem þeir horfa á snyrtilega framsettar auglýsingar um augljósa hluti meðan þeir ræna og rupla?  Og það á mörgum tungumálum!  Flottir þessir Íslendingar vita þetta á mörgum tungumálum.

stupidÞetta nálgast nú fáránlegar upplýsingar sem finna má með ýmsum hlutum til dæmis í Bandaríkjunum:

  • Ekki má þurrka ketti í þessum örbylgjuofni.
  • Kaffið í þessum bolla getur verið heitt og brennt þig sé því hellt niður.
  • Ekki má strauja þessa flík meðan barnið er enn í henni.

Erum við á hraðferð að næstu tilnefningu til Darwins-verðlaunanna?

Hættum nú að láta eins og fífl, síum frekar ræflana í burtu og hleypum fólki ekki inn í landið nema það sé ekki á sakaskrá (neins staðar):  "Við viljum ekki svona fólk hér".  Pff pff pff.   Við verðum líklega kát þegar við verðum spurð um sakavottorð næst þegar á að sóla sig á Costa Del Sol eða versla í Köben.  Já, þetta virkar í báðar áttir sko.  Police


Keðjubréf.

Reglulega gengur yfir heimsbyggðina keðjubréfaæði.  Það hefur gert það í áratugi.  Hér áður með venjulegum pósti.  Ég man eftir einhverjum tilgangi með sumum hér í gamla daga, senda servíettur, tyggjóplötu eða eitthvað til efsta nafnsins á listanum og senda svo nýtt eins bréf til 5 vina, fjarlægja efsta nafnið af listanum og setja sitt neðst.  Svo átti maður auðvitað að drukkna í servíettum eða tyggjói eða einhverju.  Ég hef slitið óteljandi svona keðjur, einhverjum tókst mér að halda áfram, en minnist þess ekki að hafa fengið svo mikið sem tyggjóbréf.

Í dag gengur þetta með email.  Póstur með einhverjum krúttlegum myndum, upphrópun um að þú hafir lent í snjóboltakeðjunni og allir sem hafa tekið þátt í henni hafa orðið fyrir einhverju ótrúlegu happi og hinar og þessar dæmisögur um þá sem slitu keðjuna og hafa lent í hræðilegum slysum eða eitthvað.  Geðslegt?  Krúttlegt?  Bara gaman að þessu?

Dæmi:

Angel Tag I'll just take it as a hint if I don't get this back. How many
people actually have 8 true friends? Hardly anyone I know! But some of us
have all right friends and good friends!!! You have been tagged by the
Friendship Angel Which means you are a great friend!! You will have good luck
for Two Years if you send this to 8 people or more and if it is sent back to
you then you know that you are a true friend..... You must send it in 5
minutes or your good luck will be broken!!!

Þetta dæmi er frekar pent.  Ég persónulega þoli ekki svona bréf og slít allar keðjur (heimurinn hefur ekki enn farist samt).  Frá upphafi til enda er gefið í skyn að annað hvort sé fólk svo ömurlegt að það eigi ekki vini eða séu ekki vinir vina sinna. 

  • Er það merki um góða vináttu að senda vini sínum hótanir um ævarandi hörmungar eða bölvanir ef hann sendi ekki ómerkilegt bréf út um allan heim?
  • Er það merki um góða vináttu að stimpla "vin" þinn fyrirfram sem falskan vin ef hann heldur ekki keðjunni áfram?  Því það eru bara góðir vinir sem fá svona bréf og fá þau aftur til baka.
  • Á fólk yfirleit 8-15 góða vini?  Ég persónulega kæri mig ekki um mikið fleiri en þessar 3 allra bestu vinkonur sem ég á, aðrir eru bara venjulegir vinir eða kunningjar.
  • Hvað með ónettengdu vini þína eru þeir þá aldrei alvöru vinir?   Því þeir fá aldrei svona óbrigðul merki um stórkostlega vináttu.

Svo er ömurleikinn falinn í sætum englamyndum, krúttlegum kettlingum, fiðrildum, blómum og smábörnum.  Það hlýtur að gera þessi ljótu bréf falleg er það ekki?  Hér á árum áður man ég ekki eftir þessum hótunum og bölvunum.  Þau settu heldur engin kerfi á annan endann.  Það getur gerst í dag.  Póstþjónum út um allan heim er oft drekkt í svona bulli og þetta er oft leið til að gera óskunda í netumferð.  Umferð verður hæg, diskar fyllast af mikilvægum englamyndum og svona.  Tími er tekinn sem hægt væri að nota í eitthvað uppbyggilegra.  Til dæmis hringja í vin og segja honum hvað það sé gaman að heyra í honum.  Wink

KittyAngelAð lokum er hérna krúttlegur kettlingsengill, sem þýðir að þú hefur verið klukkaður af bloggenglinum og ef þú setur ekki ummæli hjá 45 bloggvinum fyrir kl. 15:00 á morgun muntu þjást af ritstíflu og bloggtregðu í 4 vikur og það mun snjóa fram í júní á næsta ári, bara hjá þér.

LoL  Í alvöru!  Sendu vinum þínum frekar góða kveðju og slepptu bölvununum og hótununum, hver sem þú ert og svarar alltaf öllum keðjubréfum.


Matvendni.

Erfðaprinsinn elskulegur er með matvandari börnum sem ég hef fyrirhitt um ævina.  Hann slær undirritaðri (sem barni) við svo um munar.  Hann er alinn upp við nákvæmlega sömu reglur og systir hans, sem er alls ekki matvönd.  En vegna þess að ég man hvað mér fannst tiltekin fæða vond þegar ég var barn hef ég stundum fullan skilning á hvað honum finnst um tiltekinn mat.  En gikksháttur hans gengur samt út yfir allt.

Ég skil til dæmis alveg að hann vilji ekki fitu á kjöti og sitji löngum stundum við að skrapa hvert fitumólikúl frá kjötinu.  En það er hreinlega allt.  Hann borðar ekki sósur, sem mér finnst algert hneyksli komandi úr fjölskyldu sem gæti lifað á sósum.  Hann borðar ekki grænmeti, nema kartöflur og ferskar óeldaðar baunaspírur.  Hann borðar bara epli, appelsínur og banana úr ávaxtaríkinu og bara jarðarber og kirsuber úr berjaríkinu.  Hann getur alls ekki borðað banana ef það er komin smá arða af brúnum bletti á hýðið, skiptir þá engu þó bananinn sjálfur hafi ekki vott af misfellu. 

Þetta þýðir að oft erum við með fulla skápa af fínustu banönum sem eru á hraðbraut í ruslið.  Það gengur ekki, mér finnst hræðilegt að henda fullgóðum mat.  Svo hér hafa orðið til alls konar réttir með ávöxtum, sérstaklega banönum í.  Ofnbakaðir fiskréttir með eplum og banönum.  Við vitum ekki betri pizzur en með banana sem aukaálegg.  Muffins með banönum og fleiri ávöxtum og auðvitað bananabrauð.   Ég bakaði bananabrauð í gær.  Það er búið.  Alger unun að borða það heitt beint úr ofninum með vænni klípu af smjöri, sem bráðnar ofan í sneiðina.

Bananabrauð

3 dl hveiti
1½ dl sykur
1 tsk matarsódi
½ tsk salt
1 egg
3 bananar

Bananarnir eru stappaðir vel.  Öllum þurrefnum blandað saman í skál, egg og stappaðir bananar settir út í.  Hrært eins lítið og hægt er, bara nægilega til að blandist vel.  Deigið sett í smurt jólakökumót. 

Bakað við 180°C í 50 mínútur (blástursofn).

Hrikalega einfalt og gott, getur alveg gert venjulegan sunnudag að sérstökum sunnudegi.  Grin


Kynferðiskynning.

Ég man þarna um árið að Ísland varð frægt í skemmtanaiðnaðinum.  Það kom fram í einhverjum þættinum, Sopranos eða einhverju álíka, að íslenskar konur væru lauslátari en allt í heiminum og það væri staðurinn til að sækja heim og fá á broddinn.  Eitthvað rámar mig í að Flugleiðir hafi tengst þessu.  Ég man þetta ekki nægilega vel.

Samkvæmt einhverri könnun sem varð að frétt á mbl.is eru samt Tyrkir lauslátastir og við einhvers staðar á topp tíu listanum.  Las þetta ekki vel, enda ekkert sérlega merkilegt lesefni að mínu mati.

Við höfum samt löngum verið dugleg að hampa "Ísland best í heimi" á alla mögulega kanta:  Bestu skáldin, besti stangastökkvarinn, bestu kartöflurnar, bestu nördarnir, fallegasta kvenfólkið og já já endilega höfum það með lauslátasta kvenfólkið, það selur svo vel *blikk blikk*.

Áðan horfði ég á Dr. House og að þættinum loknum eru sýnd brot úr næsta þætti.  Meðal annars brot þar sem ung falleg stúlka vill fleygja sér í bólið með háttvirtum lækninum og er að réttlæta það og segir:  "Á Íslandi mega stelpur stunda kynlíf 14 ára, af hverju ekki hér?".  !!!!!!! 

Mig rak í rogastans.  Hverjum í grængoluðum golþorskum finnst þetta sniðug landkynning og kemur þessu á framfæri til notkunar í afþreyingarefni - vinsælu?  Svo erum við hissa á að það gangi ekkert að herða refsingar gagnvart barnaníði og kynferðisofbeldi.


Næsta síða »

Höfundur

krossgata
krossgata
Sérleg áhugamanneskja um krossgátur, þá sérstaklega sunnudagsgátu mbl.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband