Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Hæst bylur í tómri tunnu?

Núna áðan heyrði ég endursýningu á úrslitum Laugardagslaganna frá í gær.  (Nennti ómögulega að horfa).  Það er talað við eitthvað af fólki úr hópunum sem lenti í þremur efstu sætunum.  Þá tók ég eftir að Friðrik Ómar segir:  "Mig langar bara til að segja að stundum bylur hæst í tómri tunnu".

Skilur einhver hvað maðurinn átti við?  Ætli hann viti hvað máltækið þýðir?  Ég man ekki betur en að það þýði að mest fari fyrir heimskum, ómerkilegu, innihaldsrýru eða vitni um hroka eða mont.  Á Friðrik við að þau Regína séu heimsk, hrokafull eða montin, lagið sé innihaldsrýrt og ómerkilegt og þau unnu náttúrulega og þar með hæst, háværust?  Ég trúi ekki að hann hafi verið að segja þetta um sig og sína félaga ef hann veit hvað þetta þýðir.

Nú ef Friðrik veit hvað máltækið þýðir.  Var þetta þá meinlegt skot á Barða með tilvísun í bumburnar (tunnurnar) í laginu hans?   Jæja, hvort sem er þá gerir hann lítið úr þeim sem þetta á við.  Hann var ekki í miklu áliti hjá mér fyrir, en það minnkaði all verulega.  Nú leiðist mér enn meir að hann skuli fara sem fulltrúi Íslands í Eurovision-keppnina.


Brókarsjóðurinn.

Það kviknaði hjá mér hugmynd um daginn þegar ég rakst á skrif um STEF-gjöld og útfærðist hún lítillega í umræðum við þau skrif.  Það væri nú kannski leið til að jafna launamun kvenna og karla að nota STEF-gjaldaaðferðina.  Nú er verið að leggja lagafrumvarp fyrir þing sem miðar að því að koma einhverju skikki á þetta mál.  En við vitum að litla sveitalega íhaldssama þjóðin á norðurhjara veraldar mun ekki samþykkja neinar breytingar í þessa átt og að það virka ekki almenn markaðslögmál á þessu landi.  Því tel ég að ráð sé að nota eitthvað sem virkar nú þegar.

Það svínvirkar hjá STEF að safna í feita sjóði með því að taka ákveðnar upphæðir af hverjum einasta geisladisk, myndbandsspólu og mp3-spilara sem seldur er.  Feitu sjóðirnir eru ætlaðir sem bætur fyrir meint brot á höfundarrétti sem hugsanlega er hægt að fremja með varningnum.  Það væri aldeilis hægt að nota þetta módel til að safna í sjóði og bæta konum launaskerðinguna sem þær verða fyrir vegna þess að þær eru konur.  Reyndar ekkert hugsanlegt þar, launamunurinn er staðreynd.

Það má setja fast gjald á allar nærbuxur með buxnaklauf, til dæmis 800 kr. og 300 kr. á allar nærbuxur merktar Spiderman, Batman, Superman eða aðrar teiknimyndahetjur.  2000 kr. skatt á alla skó af stærð 41 og stærra, (konur sem nota svona stóra skó fórna sér bara fyrir málstaðinn).  Þessi gjöld myndu svo renna í Brókarsjóðinn og úr honum yrði úthlutað til kvenna þegar þær eru farnar að vinna og fengi hver kona mismun launa milli sín og karlmanns í sama/sambærilegu starfi.  Með tíð og tíma má svo auka gjaldtökuna og setja gjöld á fleiri karlmiðaðar vörur.


Keðjubréf.

Reglulega gengur yfir heimsbyggðina keðjubréfaæði.  Það hefur gert það í áratugi.  Hér áður með venjulegum pósti.  Ég man eftir einhverjum tilgangi með sumum hér í gamla daga, senda servíettur, tyggjóplötu eða eitthvað til efsta nafnsins á listanum og senda svo nýtt eins bréf til 5 vina, fjarlægja efsta nafnið af listanum og setja sitt neðst.  Svo átti maður auðvitað að drukkna í servíettum eða tyggjói eða einhverju.  Ég hef slitið óteljandi svona keðjur, einhverjum tókst mér að halda áfram, en minnist þess ekki að hafa fengið svo mikið sem tyggjóbréf.

Í dag gengur þetta með email.  Póstur með einhverjum krúttlegum myndum, upphrópun um að þú hafir lent í snjóboltakeðjunni og allir sem hafa tekið þátt í henni hafa orðið fyrir einhverju ótrúlegu happi og hinar og þessar dæmisögur um þá sem slitu keðjuna og hafa lent í hræðilegum slysum eða eitthvað.  Geðslegt?  Krúttlegt?  Bara gaman að þessu?

Dæmi:

Angel Tag I'll just take it as a hint if I don't get this back. How many
people actually have 8 true friends? Hardly anyone I know! But some of us
have all right friends and good friends!!! You have been tagged by the
Friendship Angel Which means you are a great friend!! You will have good luck
for Two Years if you send this to 8 people or more and if it is sent back to
you then you know that you are a true friend..... You must send it in 5
minutes or your good luck will be broken!!!

Þetta dæmi er frekar pent.  Ég persónulega þoli ekki svona bréf og slít allar keðjur (heimurinn hefur ekki enn farist samt).  Frá upphafi til enda er gefið í skyn að annað hvort sé fólk svo ömurlegt að það eigi ekki vini eða séu ekki vinir vina sinna. 

  • Er það merki um góða vináttu að senda vini sínum hótanir um ævarandi hörmungar eða bölvanir ef hann sendi ekki ómerkilegt bréf út um allan heim?
  • Er það merki um góða vináttu að stimpla "vin" þinn fyrirfram sem falskan vin ef hann heldur ekki keðjunni áfram?  Því það eru bara góðir vinir sem fá svona bréf og fá þau aftur til baka.
  • Á fólk yfirleit 8-15 góða vini?  Ég persónulega kæri mig ekki um mikið fleiri en þessar 3 allra bestu vinkonur sem ég á, aðrir eru bara venjulegir vinir eða kunningjar.
  • Hvað með ónettengdu vini þína eru þeir þá aldrei alvöru vinir?   Því þeir fá aldrei svona óbrigðul merki um stórkostlega vináttu.

Svo er ömurleikinn falinn í sætum englamyndum, krúttlegum kettlingum, fiðrildum, blómum og smábörnum.  Það hlýtur að gera þessi ljótu bréf falleg er það ekki?  Hér á árum áður man ég ekki eftir þessum hótunum og bölvunum.  Þau settu heldur engin kerfi á annan endann.  Það getur gerst í dag.  Póstþjónum út um allan heim er oft drekkt í svona bulli og þetta er oft leið til að gera óskunda í netumferð.  Umferð verður hæg, diskar fyllast af mikilvægum englamyndum og svona.  Tími er tekinn sem hægt væri að nota í eitthvað uppbyggilegra.  Til dæmis hringja í vin og segja honum hvað það sé gaman að heyra í honum.  Wink

KittyAngelAð lokum er hérna krúttlegur kettlingsengill, sem þýðir að þú hefur verið klukkaður af bloggenglinum og ef þú setur ekki ummæli hjá 45 bloggvinum fyrir kl. 15:00 á morgun muntu þjást af ritstíflu og bloggtregðu í 4 vikur og það mun snjóa fram í júní á næsta ári, bara hjá þér.

LoL  Í alvöru!  Sendu vinum þínum frekar góða kveðju og slepptu bölvununum og hótununum, hver sem þú ert og svarar alltaf öllum keðjubréfum.


Hvað hefur orðið um laugardagskvöldin?!

Laugardagskvöld eru indæl kvöld.  Sunnudagskrossgátan, kaffibolli (lesist: kaffibollar) og jafnvel líkjör.  Það gerist bara ekki betra.  Til þess þarf að fá sunnudagsmoggann, sem er dreift síðla laugardags.  Hvaða merkingu má leggja í orðið síðla?  Ég er með helgaráskrift að Mogganum og las um dreifingu Morgunblaðsins á vefnum.  Þar stendur og hefur staðið í að minnsta kosti eitt og hálft ár:

 "Við gerum okkar ýtrasta til þess að koma blaðinu til áskrifenda eigi síðar en klukkan sjö að morgni alla útgáfudaga nema sunnudaga, en sunnudagsblaðinu er dreift síðla laugardags.
"

Ég hef oft velt fyrir mér og reynt að fá upplýsingar um hvað síðla einhvers dags, í þessu tilfelli laugardags, þýði.  Ég persónulega legg þann skilning í að þetta sé seinni hluta laugardags, þ.e. til kl. 19:00 eða svo.  Þá er komið kvöld hjá mér.  Spyrji maður áskriftardeild Mbl þá fást ekki svör og helst skipt um umræðuefni.  En þolinmæðin þrautir vinnur allar og á endanum kríjaði ég út það svar að það teldist allt til miðnættis.  W00t

Ég spyr bara.... Hvað varð um laugardagskvöldin?!!!!!! Nú er bara laugardagsnótt - til u.þ.b. 6 að morgni laugardags.  Þá tekur við laugardagsmorgunn - svona fram að hádegi eða svo.  Síðan má ætla að eftir það sé laugardagurinn sjálfur og hann getur bara ekki náð lengra en til kl. 19:00 með góðu móti.  En áskriftardeildin er búin að lengja hann til 23:59.

Það eru engin laugardagskvöld lengur!!  Ekki lýgur Mogginn.  Woundering  Ég vil fá laugardagskvöldin aftur!!!  Crying og sunnudagsmoggann samkvæmt mínu síðla.


Það er kannski...

... að bera í bakkafullan lækinn að skrifa eitthvað um þetta heita hundamál.  En ég ætla samt að gera það.  Mér finnst múgæsingin þvílík og það yfir tómum sögusögnum.  Lýsingar eru auðvitað hrikalegar og ómanneskjulegar á atburðum, en hvað er svo sem vitað í þessu máli?

Hundurinn hvarf 28. maí.  Atburðurinn ömurlegi á að hafa gerst helgina 15.-17. júní.  Samt er iðulega talað um að ungu mennirnir hafi rænt honum eða fundið hann.  Hvenær? Eiga þeir að hafa haft hundinn allan þennan tíma, tvær og hálfa viku?  Það síðasta sem ég hef úr fréttum er að hundurinn hefur ekki fundist enn og því í raun ekkert vitað um ástand hans.

Vitni gefur sig fram 10-12 dögum eftir að atburðurinn á að hafa átt sér stað.  Lætur maður ekki vita strax?  Mér finnst einhvern veginn trúlegra að ef fólk gefur sig ekki fram strax þá sleppi það því alfarið.  Einhvers staðar á bloggi las ég að Neyðarlínan eigi að hafa gert lítið úr málinu þegar hringt var og sagt að lögreglan hefði ekki tíma til að svara svona löguðu.  Man ekki eftir að hafa séð það neins staðar í fréttum.  En illt ef satt er.

Það er talað um að verknaðurinn hafi náðst á öryggismyndavél, en það er engin öryggismyndavél á staðnum þar sem þetta á að hafa átt sér stað.

Það grípur um sig múgæsing meðal fólks og farið er að ásækja ungan mann með allt að því álíka grimmdarlegum hætti og verknaðurinn sem hann er sakaður um, sem enginn veit þó hvort hann hefur komið nokkuð nálægt.  Hann fullyrðir þó að hann hafi ekki verið á Akureyri á þessum tíma.  Það er skiljanlegt í ljósi aðstæðna, en væri kjánalegt ef hann hefur verið þar þá.

Svo er haldan kertavaka til minningar um hund, sem enginn veit hvar er eða í hvaða ástandi.  Það er ekki einu sinni haldin kertavaka þegar börn deyja af slysförum eða öðrum ástæðum.  Ég man eftir kertavöku til minningar um fórnarlömb sprengjunnar á Hirosima og Nagasaki.

Ég vona að eigendur hundsins finni hann, helst á lífi og við góða heilsu, en alla vega fái að vita um afdrif hans.  En er ekki rétt að slaka á þar til öll kurl eru komin til grafar? 

16.07.2007  Nú eru flest kurl komin til grafar og hundurinn reyndist vera á lífi.  Mikið er ég fegin því.  Merkilegt hvað hann virðist vera styggur.


Rak augun í...

Á, vont þegar maður rekur augun svona í.

Það var þétt setinn bekkurinn og læviblandað andrúmsloft á glæpaknæpunni Grand Rokk í Reykjavík í dag.

Undarlega orðað.  Shocking  Er Grand Rokk viðurkennt, yfirlýst athvarf glæpa/glæpamanna?


mbl.is Húðflúrmeistarar á nálum á Grand Rokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spár eða tilkynningar.

Las eftirfarandi stjörnuspá áðan:

Einhver blómstrar nálægt þér. Og þótt honum finnist óþægilegt að heyra það, eru athugasemdir þínar réttar. Bíddu þar til hann hefur róast.

Hverjir eru það eiginlega sem sitja og semja svona bull?  Ef einhver blómstrar eins og sagt er, hélt ég að það væri eitthvað jákvætt.  Af hverju ætti að vera óþægilegt að heyra það?  Bíða þar til þessi einhver hefur róast - að blómstra er sem sagt einhver órói?  Fyrir utan það að þessi fyrirmæli eru ekki spá í eðli sínu.

Spá dagsins:  Veður mun verða gott sums staðar á jörðinni. 

Ráðlegging spámannsins:  Notaðu tækifærið og skrepptu þangað.

Cool


Skjóta af byssum til að mótmæla byssueign...

Hvar fengu Grænfriðungar hræin, veiddu þeir ekki bara dýrin sjálfir?  Það er eitthvað verulega öfugsnúið við að nota dauð dýr til að mótmæla veiðum á sömu dýrum.

Merkilegt líka að Grænfriðungarnir, sem láta sér mest annt um það sem ekki er grænt (voða lítið grænt í sjónum nema kannski þörungar), horfa lítið til eins mesta hvaladrápara heimsins, Bandaríkjanna.  Þar er höfrungadráp stundað í stórum stíl.


mbl.is Hvalahræ við Brandenborgarhliðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Xhvad er að baki?

Fólk hefur haft gaman af því undanfarið að nota xhvad.bifrost.is til að kanna hvar skoðanir þess liggja.  Ég hafði meira gaman af því að kanna hvað lá að baki spuringunum til að aðgreina fylgi við flokkana.

Valmöguleikinn "Engin skoðun" gefur 0 stig á alla flokkana, algjörlega rökrænt.  Valmöguleikar við einni spurningu geta gefið mínus stig, en þá bara á Vinstri græna.  Og svo merkilegt sem það nú er þá gefa valmöguleikarnir, "Ósammála" og "Mjög ósammála", við eina spurninguna, 0 stig á alla flokka.  Svo ef fólk er á móti því að gefa vínverslun frjálsa (en það er samt skoðun) og telur sig vera að raða stigum á fylgi við einhvern flokk með því að gefa það upp sem svar... þá nei, svo er ekki, það getur allt eins haft enga skoðun á því.

En ég setti þetta upp í töflu að gamni.

Stóriðja er íslensku samfélagi til framdráttarmjög samsammósammmjög ósam
sjálfstæðisfl.12,56,25  
framsóknarfl.2010  
vinstri grænir  6,2512,5
íslandshreyfingin  1020
Ísland á að hefja aðildarviðræður við Evrópusamb.mjög samsammósammmjög ósam
sjálfstæðisfl.   12,5
samfylking2512,5  
vinstri grænir  6,2512,5
Áframhaldandi samstarf við NATO er grundvöllur...mjög samsammósammmjög ósam
sjálfstæðisfl.12,56,25  
framsóknarfl.2010  
samfylking2512,5  
vinstri grænir  6,2512,5
frjálslyndi fl.105  
íslandshreyfingin2010  
Áframhaldandi einkavæðing ríkisfyrirtækja er ...mjög samsammósammmjög ósam
sjálfstæðisfl.12,56,25  
vinstri grænir  6,2512,5
frjálslyndi fl.105  
Grunnnám í ríkisreknum háskólum á að vera gja..mjög samsammósammmjög ósam
sjálfstæðisfl.  6,2512,5
framsóknarfl.2010  
samfylking2512,5  
vinstri grænir12,56,25  
frjálslyndi fl.105  
íslandshreyfingin2010  
Taka þarf upp annað fiskveiðistjórnarkerfi á Íslandimjög samsammósammmjög ósam
sjálfstæðisfl.  6,2512,5
vinstri grænir12,56,25  
frjálslyndi fl.105  
Einkavæðing er æskileg í heilbrigðisgeiranummjög samsammósammmjög ósam
sjálfstæðisfl.12,56,25  
samfylking2512,5  
vinstri grænir  6,2512,5
frjálslyndi fl.105  
íslandshreyfingin2010  
Aðskilnaður ríkis og kirkju yrði íslensku samféla...mjög samsammósammmjög ósam
framsóknarfl.  1020
frjálslyndi fl.105  
Gefa á verslun með léttvín og bjór frjálsamjög samsammósammmjög ósam
sjálfstæðisfl.12,56,25  
frjálslyndi fl.105  
Afnema á innflutningshöft á landbúnaðarvörummjög samsammósammmjög ósam
framsóknarfl.  1020
vinstri grænir  6,2512,5
frjálslyndi fl.105  
íslandshreyfingin2010  
Takmarka á verulega innflutning verkafólks til Ísl...mjög samsammósammmjög ósam
frjálslyndi fl.126-6-12


Höfundur

krossgata
krossgata
Sérleg áhugamanneskja um krossgátur, þá sérstaklega sunnudagsgátu mbl.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband