Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Það er kannski...

... að bera í bakkafullan lækinn að skrifa eitthvað um þetta heita hundamál.  En ég ætla samt að gera það.  Mér finnst múgæsingin þvílík og það yfir tómum sögusögnum.  Lýsingar eru auðvitað hrikalegar og ómanneskjulegar á atburðum, en hvað er svo sem vitað í þessu máli?

Hundurinn hvarf 28. maí.  Atburðurinn ömurlegi á að hafa gerst helgina 15.-17. júní.  Samt er iðulega talað um að ungu mennirnir hafi rænt honum eða fundið hann.  Hvenær? Eiga þeir að hafa haft hundinn allan þennan tíma, tvær og hálfa viku?  Það síðasta sem ég hef úr fréttum er að hundurinn hefur ekki fundist enn og því í raun ekkert vitað um ástand hans.

Vitni gefur sig fram 10-12 dögum eftir að atburðurinn á að hafa átt sér stað.  Lætur maður ekki vita strax?  Mér finnst einhvern veginn trúlegra að ef fólk gefur sig ekki fram strax þá sleppi það því alfarið.  Einhvers staðar á bloggi las ég að Neyðarlínan eigi að hafa gert lítið úr málinu þegar hringt var og sagt að lögreglan hefði ekki tíma til að svara svona löguðu.  Man ekki eftir að hafa séð það neins staðar í fréttum.  En illt ef satt er.

Það er talað um að verknaðurinn hafi náðst á öryggismyndavél, en það er engin öryggismyndavél á staðnum þar sem þetta á að hafa átt sér stað.

Það grípur um sig múgæsing meðal fólks og farið er að ásækja ungan mann með allt að því álíka grimmdarlegum hætti og verknaðurinn sem hann er sakaður um, sem enginn veit þó hvort hann hefur komið nokkuð nálægt.  Hann fullyrðir þó að hann hafi ekki verið á Akureyri á þessum tíma.  Það er skiljanlegt í ljósi aðstæðna, en væri kjánalegt ef hann hefur verið þar þá.

Svo er haldan kertavaka til minningar um hund, sem enginn veit hvar er eða í hvaða ástandi.  Það er ekki einu sinni haldin kertavaka þegar börn deyja af slysförum eða öðrum ástæðum.  Ég man eftir kertavöku til minningar um fórnarlömb sprengjunnar á Hirosima og Nagasaki.

Ég vona að eigendur hundsins finni hann, helst á lífi og við góða heilsu, en alla vega fái að vita um afdrif hans.  En er ekki rétt að slaka á þar til öll kurl eru komin til grafar? 

16.07.2007  Nú eru flest kurl komin til grafar og hundurinn reyndist vera á lífi.  Mikið er ég fegin því.  Merkilegt hvað hann virðist vera styggur.


Að gautast.

Ætli það komi fyrir í lífi allra barna að búa sér til orð yfir hluti og/eða athafnir?  Ég man ekki eftir að börn vina minna eða ættingja hafi gert það.  Bæði mín börn gerðu það þó.  Dóttir mín notaði um tíma orðið "geitubattar" yfir badmintonspaða og talaði um að "geita" þegar við vorum að spila badminton.  Þá var hún 2-3 ára.  Hún fullyrti líka að vínber væru "hilbír". 

Sonur minn sem er töluvert yngri talaði um að "gemma" um það að bursta tennurnar.  Svo uxu þau úr grasi og heimatilbúnu orðin hurfu þegar þau fóru að ná vel upp fyrir grastoppana.  Nú er barnabarnið orðið þriggja ára og viti menn hann býr til orð þegar honum finnst hann vanta eitthvað í orðaforðann.

Í dag vorum við að leika að "tindátum" (þeir eru úr plasti í dag).  Þetta voru riddarar, á hestum, með sverð og lensur og voru skýr fyrirmæli frá guttanum að nú skyldi barist, sem í hans munni var að "gautast".  Amma reyndi að finna út hvað "gautast" þýddi og stakk upp á að þeir væru kannski að skylmast?  "Nei, gautast".  -"Eða berjast"?  - "Nei, við erum að gautast".  Ömmustrákur brosir fallega til ömmu.

-Nú jæja, eru þeir kannski að skjótast eitthvað?  Í því greiddi hann riddaranum hennar ömmu svakalegt högg, svo hann datt af baki og niður á gólf og svaraði því að bragði:  "Já, hann skjótist nið'rá gólf".  Amma mátti bjarga riddaranum sínum frá bráðri glötun á gólfinu og halda áfram að gautast, takk fyrir.

Gautast þýðir að berjast með riddurunum fínu og ekkert meira með það.  Það er samt greinilega ekkert annað orð sem nær nákvæmlega þessari merkingu, ekki berjast, skylmast, skjótast.  Þetta er bara algerlega sjálfstætt fínt orð.


Frændi minn....

Er þetta ekki fullmikið af tengingum við að Íslendingar séu miðpunktur alheimsins?  Þetta er bara hreint agaleg grein.  Það er eins og 9 ára barn hafi skrifað. 

"Það er sko frændi minn sem var þarna alveg bara akkúrat þegar þetta gerðist.  Eða hann Siggi sko, hann er giftur konu sem var einu sinni gift frænda mínum.  Hann alla vega keyrði framhjá Hull rétt áður en byrjaði a rigna.  Gvuð, hugsið ykkur ef hann hefði nú verið aðeins seinna á ferðinni og það hefði verið byrjað að rigna í Hull.  Hann hefði getað lent í flóði".

Er ekki hægt að segja fréttir án þess að Íslendingar hafi komið þar nærri?


mbl.is Þúsundir manna hafa flúið flóð í Bretlandi - Íslendingur segist aldrei hafa séð annað eins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstakar lausnir, af hverju?

Þetta er örugglega jafn hættulegt og öll önnur úrræði.  Þú ert líklega jafn dauður ef þú lendir á naglamottu á 200 km hraða eins og ef þú lendir á einhverjum bíl einhvers annars sem á sér einskis ills von, á sama hraða.  Skiptir það annars máli hvað lögreglan notar til að stöðva fólk á þessum hraða, hvort sem það er bíll eða hjól og viðkomandi ætlar greinilega ekki að stoppa? 

Mér virðist að það sé sama hvað lögreglan gerir það verður allt snarvitlaust yfir því að mega ekki nota sínar eigin heimatilbúnu umferðarreglur, sem snúast um að eiga forréttindi í umferðinni, stofna mínu lífi og annarra í hættu.  Nú ef við hin dirfumst að benda á að við séum ósátt við þessar heimatilbúnu sérreglur, t.d. svigið á hvítu línunni milli akreina til þess að komast fram úr umferðinni, hærri hámarkshraði en aðrir í landinu þurfa að búað við þá er það tillitsleysi og einelti.  Af hverju ættu að gilda sérreglur fyrir bifhjólamenn/-konur?

Sérstakt hraðaksturssvæði er örugglega bráðsniðugt og gaman að nota.  Af hverju byggja áhugamenn um slíkt þá ekki þannig svæði?  Af hverju ætti ríkið eða sveitarfélög að rétta þeim það upp í hendurnar?  Af því þeir hóta annars að halda áfram að nota sér umferðarreglur fyrir sig og terrorisera almenning í umferðinni, þar til þeir fá það? (eins og ofdekraðir frekir krakkar).  Hins vegar mun slíkt svæði, hver sem byggir það, ekki koma í veg fyrir að þessir nokkru svörtu sauðir (hvort sem um ræðir ökuníðinga á bílum eða bifhjólum) níðist á umferðarlögum og -reglum.

 Af hverju er annars bifhjólaklúbbur að mæla með þessari aðferð gegn öðrum bifhjólamönnum sem hafa framið glæp eða munu fremja glæp?

Einu sérlausnirnar sem ég sé að ökuníðingar er að þeir fái sér þroska til að geta verið í samfélagi með öðru fólki.  Það er líklega hættuminnsta lausnin.


mbl.is Varað við naglamottum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rak augun í...

Á, vont þegar maður rekur augun svona í.

Það var þétt setinn bekkurinn og læviblandað andrúmsloft á glæpaknæpunni Grand Rokk í Reykjavík í dag.

Undarlega orðað.  Shocking  Er Grand Rokk viðurkennt, yfirlýst athvarf glæpa/glæpamanna?


mbl.is Húðflúrmeistarar á nálum á Grand Rokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spár eða tilkynningar.

Las eftirfarandi stjörnuspá áðan:

Einhver blómstrar nálægt þér. Og þótt honum finnist óþægilegt að heyra það, eru athugasemdir þínar réttar. Bíddu þar til hann hefur róast.

Hverjir eru það eiginlega sem sitja og semja svona bull?  Ef einhver blómstrar eins og sagt er, hélt ég að það væri eitthvað jákvætt.  Af hverju ætti að vera óþægilegt að heyra það?  Bíða þar til þessi einhver hefur róast - að blómstra er sem sagt einhver órói?  Fyrir utan það að þessi fyrirmæli eru ekki spá í eðli sínu.

Spá dagsins:  Veður mun verða gott sums staðar á jörðinni. 

Ráðlegging spámannsins:  Notaðu tækifærið og skrepptu þangað.

Cool


Ekki einleikið...

Ég fletti í gegnum einhvern myndbandaauglýsingabækling eða -blað í gær, sem heitir því frumlega nafni Myndir eða eitthvað í þá veruna.  Þar rakst ég á setninguna "það er ekki einleikið að vera meðal fræga og fallega fólksins í...l"Woundering Á eftir fylgdi svo lýsing á hvað einhver stjarnan ætti það erfitt bara vegna fegurðar sinnar.

Af hverju í ósköpunum er fólk að nota orðatiltæki sem það veit ekki hvað þýðir?  Þetta er líklega sama kýrskýra fólkið og heldur að kýrskýr þýði að vera klár.  LoL


Stormur í vatnsglasi?

Það eru alltaf einhverjar dómsdagsspár í gangi.  Það er vegur þessarar aldar.  Fyrir stuttu síðan birtist þessi grein http://www.mbl.is/mm/frettir/togt/frett.html?nid=1269866 þar sem nú eru allir hættir við að hafa smá-ísöld á norðurhveli.  Ætli það sé þá svona 3 vikur í að þeir blása þessa tilteknu dómsdagsspá af líka?

 Málið er nokkuð einfalt, við eigum að reyna að gera sjálf eins og við þykjumst vera að kenna börnunum okkar, ganga vel um.  Það skiptir ekki máli hvar, heima, hjá öðrum, úti í náttúrunni.  Það er líka alveg morgunljóst að maðurinn er ekki að fara að flytja í torfkofa aftur, lýsa upp með lýsislömpum, hita vistarverur með búpeningi, skipta yfir í hestvagna.  Við verðum einfaldlega að lifa með þeim veruleika sem við höfum ákveðið að skapa okkur.


mbl.is Bráðnun íss hraðar áhrifum hlýnunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfundur

krossgata
krossgata
Sérleg áhugamanneskja um krossgátur, þá sérstaklega sunnudagsgátu mbl.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband