Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007
16.7.2007 | 20:59
Hvarfið.
Nú ætla ég að taka mér pínulítið frí frá blogginu. Ekki að ég hafi verið svo afkastamikill bloggari hvort sem er. Það stóð aldrei til að blaðra frá sér allt vit á netinu hvort sem er. Stöku sinnum rakst maður inn á blogg og varð að tjá sig eitthvað um það sem ritað var... en það var ekki hægt nema vera skráður bloggari, þ.e.a.s. hjá sumum bloggurum. Það var upphaflega ástæðan fyrir að ég ákvað að gerast meðlimur í bloggi mbl.is. En núna sem sagt er komið að smá hléi. Ég er að fara til Portúgal á morgun og ætla að dvelja þar í tvær vikur. Á ekki von á að eyða tímanum þar mikið á netkaffihúsum til að blogga. Ég á örugglega eftir að sakna þess að geta ekki legið yfir nokkrum uppáhalds bloggurnum mínum: jenfo, jonaa, gurrihar og tharfagreini svo ég nefni nokkra. Ég á þó von á að ég nái að líta á eina og eina færslu.
En fyrst ég er að skrifa bloggfærslu á annað borð þá er gaman að nefna hluti sem allir nefna einhvern tíma á blogginu. Til dæmis að blogga ekki undir eigin nafni. Nú get ég til dæmis nánast áhyggjulaus nefnt að ég er að fara til útlanda þar sem þeir sem helst stunda að ræna íbúðir fólks sem er í fríi þurfa að hafa töluvert fyrir því að finna út hver ég er. (Mér dettur ekki eitt augnablik í hug að sá hluti þjóðfélagsins sé algerlega andvaralaus um internetið). Auðvitað er það ekki ómögulegt, en eins og ég sagði fyrirhöfn. Það er nú reyndar ekki fyrirhafnarinnar virði, fyrir það fyrsta vegna þess að ég fékk mér húsgæslu upp á útlenska vísu og mun fólk búa í íbúðinni meðan ég er í burtu og gæta kisa og halda honum selskap. Enda vita allir kettir með köttum að heimurinn er bara til fyrir þá og sólin snýst um þá svo það liggur í hlutarins eðli að þeir fái þjónustu á meðan þetta venjulega þjónustufólk bregður sér frá.
Svo er það hitt sem allir nefna einhvern tíma, nei bara sumir reyndar, en það er hundurinn Lúkas sem hvarf og var myrtur og haldnar kertavökur til minningar um. Hann reis upp frá dauðum. Slík kraftaverk gerast nú ekki á hverjum degi. Ég var búin að óska þess hér í eldra bloggi að hann myndi finnast heill á húfi og hvað gerist, hann finnst heill á húfi fyrir utan smá styggð!!! Eru þetta ekki merki um að ég eigi að óskblogga meira?!!!!!!! Hvað um það, mér finnst að eigandi hundsins eigi að biðja, strákgreyið sem var ofsóttur, afsökunar og það opinberlega. Fólk getur fullyrt eins og það vill að það hafi ekki verið henni að kenna og hún ekki upphafsmaður, það er kannski alveg rétt. En hún tók þátt í því, mjög pent, en afar opinberlega.
Sjáumst eftir tvær vikur eða svo.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.7.2007 | 01:28
Lífið.
Þau voru öll saman í stofunni. Fullorðin hjón, dóttir þeirra og barn hennar. Venjulegur dagur með kaffisopa að loknu dagsverki. Mæðgurnar sátu í sitt hvorum stólnum og ræddu um landsins gagn og nauðsynjar af öryggi þeirra sem allt vita. Það var ekkert nýtt. Maðurinn stóð í gættinni og horfði yfir sviðið með undarlegt bros á vörum.
Barnabarnið lék sér til hliðar. "Amma, kondu énna!" hrópaði hann og vildi fá ömmu til að leika. Ömmu var mikið niðri fyrir og var að ræða hástöfum eitthvað óréttlæti heimsins eins og að uppáhalds kakan í Bónus hafði hækkað tvöfalt á síðustu mánuðum og fólkið á annarri hæðinni sem var með þrjá bíla tók öll bílastæðin og óánægjan streymdi úr hljómfalli raddarinnar.
"Bíddu aðeins kúturinn minn amma er að tala við afa", sagði amma og snýr sér aftur að manni sínum og dóttur og heldur áfram að þusa af miklum móð um mikilvægustu mál dagsins og er mikið niðri fyrir. "Amma, konda leika", segir drengurinn litli hálf brostinni röddu vonsvikinn yfir að amma skuli ekki spretta á fætur eins og allir vita að ömmur eiga að gera þegar ömmukútar kalla.
Amma snýr sér að drengum, í miðri háværri setningu, snarlækkar röddina og segir blíðlega: "Bíddu aðeins kúturinn minn, amma er aðeins að tuða í afa" og snýr sér aftur að hinum tveimur og heldur áfram réttlætisræðunni um ranglætið af engu minni styrk en áður. Dóttirin hlær. "Amma þarf að taka út tuðskammtinn sinn".
Maðurinn stendur í gættinni og horfir yfir sviðið með undarlegt bros á andlitinu. "Þetta er lífið", hugsar hann, "merkilegt að hafa ekki tekið eftir því fyrr".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2007 | 02:32
Ég man þá tíð...
Einu sinni var ég barn og gekk í skóla. Það er frekar langt síðan. Þá var "salur" á föstudagsmorgnum og allur skólinn þuldi Faðir vor... í kór. Ég var ekki alin upp á heimili trúfólks og kunni ekki "Faðir vorið" vel fyrr en um 9 ára aldur. Ég þuldi með þær setningar sem ég kunni og spáði svo sem ekkert sérstaklega í hvort maður ætti að kunna bænina eða ekki. Skipti mig engu. Kristinfræði var kennd fyrst í 10 ára bekk minnir mig. Mér fannst það voða skemmtilegar sögur, biblíusögurnar. Minnist þess ekki að þær hafi skaðað mig.
Þó foreldrar mínir væru trúlausir þá truflaði það þau ekki að kristinfræði væri kennd og ekki heldur að námsefnið væri ekki fjölmenningarlegt. Það var heldur ekki tíðarandinn. Þau sögðu mér heldur ekki að ég væri trúlaus af því þau væru trúlaus. Það var ekki trúboð í skólanum með þessari kennslu í kristinfræði. Foreldrar mínir boðuðu heldur ekki trúleysi heima. Trú var ekkert sérstaklega mikið rædd. Mér var sama um hana og hún var ekki það sem brann á þeim. Einn daginn fullyrti ég að ég tryði á Guð og annan að ég gerði það ekki. Þannig gekk þetta fyrir sig, engum til ama.
Þegar kom að fermingu var ég spurð hvort ég vildi fermast og þá fór nokkur trúarumræða fram á heimilinu. Ég var harðákveðin í því þá að ég væri ekki trúuð og tók upplýsta ákvörðun um að fermast samt. Algerlega viðskiptalegs eðlis. Þá var það bara þannig.
Þegar ég lít til baka, þá verð ég að segja að þetta var fínt, hefði ekki getað verið betra. Enginn hvorki trúaður né trúlaus sagði mér hvað ég ætti að vera. Ég hafði frelsi til að velja sjálf. Þegar ég skoða þessi læti í dag vegna trúarbragðafræðslu finnst mér foreldrar vera búnir að búa sér til vandamál. Það eru ekki börnin sem eru trúlaus og þeirra réttur að sleppa við þessarar-trúar- eða hinnar-trúarfræðslu. Það er bara ekki kominn sá tími í lífi þeirra að þau séu fær um að mynda sér almennilega skoðun á því fyrr en fer að nálgast unglingsárin. Það eru foreldrarnir sem eru trúlausir og boða það í nafni barnanna sinna.
Mín skoðun er sú að börn eigi að fá að leika og læra, í friði og hafa frelsi til að máta sig í skoðanirnar. Vera trúlaus einn daginn og trúuð hinn. Seinna taka þau örugg og sátt afstöðu í aðra hvora áttina. Það er þá þeirra val. Ætli það séu margir trúarhóparnir í heiminum sem veita þeim það frelsi? Nú eða trúleysingjahóparnir má eins spyrja? Ég held að þeir séu afar fáir, því miður. Ég þakka fyrir að hafa fengið það tækifæri.
Mannréttindadómstóll gagnrýnir kristinfræðikennslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
3.7.2007 | 14:01
Skemmtilegar kappræður.
Rakst á þessar skemmtilegu kappræður í léttum dúr um háalvarleg málefni.
http://www.yourdailymedia.com/media/1157454625/Islam_Vs_Christianity
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.7.2007 | 12:45
Persónuskilríki
Ég man ekki hvaða vitleysu mig var að dreyma í nótt, en ég fór að hugsa um persónuskilríki yfir morgunkaffibolla 1. Allt í einu fór ég að hugsa um að ég heyrði í útvarpi um daginn ósléttar farir einhverrar konu í einföldum bankaviðskiptum þar sem hún var krafin um persónuskilríki. Einu skilríkin sem hún hafði var debetkortið, með mynd, gefið út af bankanum. Bankinn tók það ekki gilt sem gild persónuskilríki. Í þessum útvarpsþætti var talað við talsmann bankans eða fjármálastofnunar einhverrar og kom fram að gildra/viðurkenndra persónuskilríkja væri krafist við tiltekin viðskipti, eitthvað í tengslum við lög um peningaþvætti og að þessi gildu/viðurkenndu skilríki væru vegabréf eða ökuskírteini.
Ég fór því að velta fyrir mér að það er löngu hætt að úthluta manni nafnskírteinum eins og gert var í mínu ungdæmi og að það eru alls ekki allir sem hafa tekið bílpróf né farið til útlanda. Því má ætla að einhver hluti þjóðarinnar eigi ekki gild persónuskilríki. Hvað gerir það fólk í einföldum bankaviðskiptum eins og millifærslu milli tveggja hálftómra reikninga? Þegar það til dæmis er augljóst að þó talsmenn banka fullyrði að debetkortið gefið út af þeim dugi til almennra viðskipta þá dugar það alls ekki til og fólk er krafið fínni pappíra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tenglar
Staldrið
Reglulegir viðkomustaðir
- OKUR Okrið á Íslandi
- Leirbulla
- Einherji
- Silfrið
- Víkverjavofan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Myndaalbúm
Nýjasta vitleysan
Ég er...
Latte!
og samanstend af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?