Færsluflokkur: Lífstíll
8.11.2007 | 12:57
Brókarsjóðurinn.
Það kviknaði hjá mér hugmynd um daginn þegar ég rakst á skrif um STEF-gjöld og útfærðist hún lítillega í umræðum við þau skrif. Það væri nú kannski leið til að jafna launamun kvenna og karla að nota STEF-gjaldaaðferðina. Nú er verið að leggja lagafrumvarp fyrir þing sem miðar að því að koma einhverju skikki á þetta mál. En við vitum að litla sveitalega íhaldssama þjóðin á norðurhjara veraldar mun ekki samþykkja neinar breytingar í þessa átt og að það virka ekki almenn markaðslögmál á þessu landi. Því tel ég að ráð sé að nota eitthvað sem virkar nú þegar.
Það svínvirkar hjá STEF að safna í feita sjóði með því að taka ákveðnar upphæðir af hverjum einasta geisladisk, myndbandsspólu og mp3-spilara sem seldur er. Feitu sjóðirnir eru ætlaðir sem bætur fyrir meint brot á höfundarrétti sem hugsanlega er hægt að fremja með varningnum. Það væri aldeilis hægt að nota þetta módel til að safna í sjóði og bæta konum launaskerðinguna sem þær verða fyrir vegna þess að þær eru konur. Reyndar ekkert hugsanlegt þar, launamunurinn er staðreynd.
Það má setja fast gjald á allar nærbuxur með buxnaklauf, til dæmis 800 kr. og 300 kr. á allar nærbuxur merktar Spiderman, Batman, Superman eða aðrar teiknimyndahetjur. 2000 kr. skatt á alla skó af stærð 41 og stærra, (konur sem nota svona stóra skó fórna sér bara fyrir málstaðinn). Þessi gjöld myndu svo renna í Brókarsjóðinn og úr honum yrði úthlutað til kvenna þegar þær eru farnar að vinna og fengi hver kona mismun launa milli sín og karlmanns í sama/sambærilegu starfi. Með tíð og tíma má svo auka gjaldtökuna og setja gjöld á fleiri karlmiðaðar vörur.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
17.8.2007 | 23:58
Reglusemi.
Þegar ég var ung og já bara allt fram á þennan dag hefur orðið reglusemi farið í taugarnar á mér. Það hefur þó ekki gert mér neitt. Ég er bara haldin upplýstum meðvituðum fordómum gagnvart því. Þetta kemur til af því að orðinu hefur oft verið lævíslega beitt til að gera lítið úr fólki.
Í gegnum tíðina þegar ég hef rætt fólk sem eldra fólk í minni fjölskyldu þekkir ekki hefur oft hljómað setningin: Er hann/hún ekki reglusöm/-samur? Í uppreisnaranda unglingsáranna þegar maður var með ofvaxna réttlætiskennd og allur heimurinn á móti manni ákvað ég alltaf að verið væri að dylgja með það að hann eða hún væru ekki fínn pappír. Þetta var nú bara ósköp sakleysisleg spurning og ekki ætlað að dylgja neitt. En þessi upplifun unglingsáranna hefur einhvern veginn lifað í mér og mér er illa við þetta orð.
Ég hef nefnilega kynnst alls konar fólki gegnum tíðina. Reglusömu fólki í þeirri merkingu sem eldra fólkið lagði í orðið: drekkur ekki, reykir ekki, er stundvís, er í vinnu/skóla osfrv. Sumt af þessu reglusama fólki hefur skort aðra kosti eins og sveigjanleika, umburðarlyndi, kímni og er leiðinlegt jafnvel illa innrætt. Sumt ekki.
Ég hef líka kynnst fólki sem þetta sama eldra fólk mitt myndi kalla óreglusamt og fitja upp á trýnið: drekkur (sumir í óhófi), reykir (sumir í óhófi), hefur mætt of seint og sumir hreinlega óstundvísir (óstundvísi pirrar mig reyndar), flestir hafa þó stundað vinnu eða skóla, en ég hef líka kynnst atvinnulausu fólki og það hefur ekkert með þessa reglusemi eða óreglusemi að gera. Sumt af þessu óreglusama fólki hefur verið indælismanneskjur. Þar stendur hnífurinn í kúnni, því þá finnst mér það ekki skipta máli hvort fólk drekkur rauðvín með matnum öðru hvoru, hvort það reykir eða hvort það hefur sofið yfir sig einu sinni eða tvisvar og finnst enginn hafa rétt á því að fitja upp á trýnið og afgreiða manneskjuna sem eitthvað síðri pappír.
Ég hef því átt það til að snúa upp á mig og snúa út úr og segja fólk afar reglusamt, t.d.: "Já hún Sigga er sko reglusöm og reykir alltaf eina sígarrettu á 2ja tíma fresti yfir vökutímann og fær sér alltaf rauðvín með matnum annan laugardag í mánuði þegar þau hjónin eiga rómantískan dag sér til heiðurs og fær sér alltaf í glas á árshátíðinni, sem hún mætir venjulega hálftíma of seint á." eða "Nei hann Lúlli er mjög óreglusamur og er afar óreglulegt og sjaldgæft að hann eigi jákvætt orð um náungann."
En líkast til er þetta allt saman ákaflega einfalt og ómerkilegt. Ég nefnilega er afar reglusöm og fæ mér reglulega rauðvín með mat, reyki jafn og þétt yfir sólarhringinn mjög skipulega og er með eindæmum stundvís. Greinilega finnst mér bara gefið í skyn að ég sé eitthvað gölluð þó ég um mig frá mér til mín hafi hreinlega ekki komið upp í umræðunni. Svona er maður nú hégómlegur.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tenglar
Staldrið
Reglulegir viðkomustaðir
- OKUR Okrið á Íslandi
- Leirbulla
- Einherji
- Silfrið
- Víkverjavofan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Myndaalbúm
Nýjasta vitleysan
Ég er...
Latte!
og samanstend af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?