Færsluflokkur: Matur og drykkur
24.9.2007 | 17:23
Matvendni.
Erfðaprinsinn elskulegur er með matvandari börnum sem ég hef fyrirhitt um ævina. Hann slær undirritaðri (sem barni) við svo um munar. Hann er alinn upp við nákvæmlega sömu reglur og systir hans, sem er alls ekki matvönd. En vegna þess að ég man hvað mér fannst tiltekin fæða vond þegar ég var barn hef ég stundum fullan skilning á hvað honum finnst um tiltekinn mat. En gikksháttur hans gengur samt út yfir allt.
Ég skil til dæmis alveg að hann vilji ekki fitu á kjöti og sitji löngum stundum við að skrapa hvert fitumólikúl frá kjötinu. En það er hreinlega allt. Hann borðar ekki sósur, sem mér finnst algert hneyksli komandi úr fjölskyldu sem gæti lifað á sósum. Hann borðar ekki grænmeti, nema kartöflur og ferskar óeldaðar baunaspírur. Hann borðar bara epli, appelsínur og banana úr ávaxtaríkinu og bara jarðarber og kirsuber úr berjaríkinu. Hann getur alls ekki borðað banana ef það er komin smá arða af brúnum bletti á hýðið, skiptir þá engu þó bananinn sjálfur hafi ekki vott af misfellu.
Þetta þýðir að oft erum við með fulla skápa af fínustu banönum sem eru á hraðbraut í ruslið. Það gengur ekki, mér finnst hræðilegt að henda fullgóðum mat. Svo hér hafa orðið til alls konar réttir með ávöxtum, sérstaklega banönum í. Ofnbakaðir fiskréttir með eplum og banönum. Við vitum ekki betri pizzur en með banana sem aukaálegg. Muffins með banönum og fleiri ávöxtum og auðvitað bananabrauð. Ég bakaði bananabrauð í gær. Það er búið. Alger unun að borða það heitt beint úr ofninum með vænni klípu af smjöri, sem bráðnar ofan í sneiðina.
Bananabrauð3 dl hveiti | Bananarnir eru stappaðir vel. Öllum þurrefnum blandað saman í skál, egg og stappaðir bananar settir út í. Hrært eins lítið og hægt er, bara nægilega til að blandist vel. Deigið sett í smurt jólakökumót. Bakað við 180°C í 50 mínútur (blástursofn). |
Hrikalega einfalt og gott, getur alveg gert venjulegan sunnudag að sérstökum sunnudegi.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.8.2007 | 23:30
Aldrei féll henni verk úr hendi.
Stundum velti ég fyrir mér hvað muni verða skrifað um mann að manni gengnum (ef þá eitthvað). Það var stundum sagt um myndarlegar húsmæður í gamla daga þegar þær voru horfnar á vit feðranna: "Aldrei féll henni verk úr hendi". Ég á ekki von á að það verði sagt um mig. Manneskju sem tekur sér náttfatadag tvisvar sinnum í mánuði og dekrar við sína sérvisku á einn eða annan hátt.
Ég vil samt benda á að núna akkúrat er ég að sjóða rabarbarasultu og er alveg hrikalega húsleg og allt. Í gær týndi ég ber og ef ég verð ekki búin að gúffa þeim öllum í mig á morgun eða hinn er hugsanlegt að ég geri líka sultu úr þeim. Ekki nóg með það heldur snaraði ég fram rabarbara-rauðlauksmauki fyrir tengdó áðan og hún fór sæl heim með þessa tilraun (hennar hugmynd reyndar - útfærð af mér ).
Svo ef fólk minnist haustdaga þegar það minnist mín getur það alveg skrifað í eftirmælin: Aldrei féll henni verk úr hendi. En nú ætla ég að koma sultunni í krukkur og fá mér brauð með smjöri og volgri sultu.
11.8.2007 | 15:53
Útlenskir bragðlaukar
... eru eitthvað vanþróaðir. Fyrir það fyrsta að hafa ekki uppgötvað almennilegan lakkrís, sem eins og allir vita fæst bara á Íslandi. Hvergi annars staðar hef ég rekist á almennilega lakkrísframleiðslu. Og svo að vera ekki fyrir löngu búin að átta sig á þeirri eðalblöndu sem lakkrís og súkkulaði er.
Ég hef unnið og vinn með slatta af fólki af erlendu bergi brotnu (ber það ekki vott um fordóma að segja útlendingar? ) og fæstum þykir lakkrís góður, þeim finnst harðfiskur afar óspennandi og lykta illa og sama gildir um hangikjötið. Það er því morgunljóst að fólk af erlendu bergi brotið hefur ekki nokkurt vit á eðalfæðu, -snakki og -sælgæti.
Það er ekki seinna vænna en fara að kenna þeim gott að..... éta.
Íslenska nammi-útrásin hafin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tenglar
Staldrið
Reglulegir viðkomustaðir
- OKUR Okrið á Íslandi
- Leirbulla
- Einherji
- Silfrið
- Víkverjavofan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Myndaalbúm
Nýjasta vitleysan
Ég er...
Latte!
og samanstend af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?