Bloggfærslur mánaðarins, september 2007
29.9.2007 | 01:35
Keðjubréf.
Reglulega gengur yfir heimsbyggðina keðjubréfaæði. Það hefur gert það í áratugi. Hér áður með venjulegum pósti. Ég man eftir einhverjum tilgangi með sumum hér í gamla daga, senda servíettur, tyggjóplötu eða eitthvað til efsta nafnsins á listanum og senda svo nýtt eins bréf til 5 vina, fjarlægja efsta nafnið af listanum og setja sitt neðst. Svo átti maður auðvitað að drukkna í servíettum eða tyggjói eða einhverju. Ég hef slitið óteljandi svona keðjur, einhverjum tókst mér að halda áfram, en minnist þess ekki að hafa fengið svo mikið sem tyggjóbréf.
Í dag gengur þetta með email. Póstur með einhverjum krúttlegum myndum, upphrópun um að þú hafir lent í snjóboltakeðjunni og allir sem hafa tekið þátt í henni hafa orðið fyrir einhverju ótrúlegu happi og hinar og þessar dæmisögur um þá sem slitu keðjuna og hafa lent í hræðilegum slysum eða eitthvað. Geðslegt? Krúttlegt? Bara gaman að þessu?
Dæmi:
Angel Tag I'll just take it as a hint if I don't get this back. How many
people actually have 8 true friends? Hardly anyone I know! But some of us
have all right friends and good friends!!! You have been tagged by the
Friendship Angel Which means you are a great friend!! You will have good luck
for Two Years if you send this to 8 people or more and if it is sent back to
you then you know that you are a true friend..... You must send it in 5
minutes or your good luck will be broken!!!
Þetta dæmi er frekar pent. Ég persónulega þoli ekki svona bréf og slít allar keðjur (heimurinn hefur ekki enn farist samt). Frá upphafi til enda er gefið í skyn að annað hvort sé fólk svo ömurlegt að það eigi ekki vini eða séu ekki vinir vina sinna.
- Er það merki um góða vináttu að senda vini sínum hótanir um ævarandi hörmungar eða bölvanir ef hann sendi ekki ómerkilegt bréf út um allan heim?
- Er það merki um góða vináttu að stimpla "vin" þinn fyrirfram sem falskan vin ef hann heldur ekki keðjunni áfram? Því það eru bara góðir vinir sem fá svona bréf og fá þau aftur til baka.
- Á fólk yfirleit 8-15 góða vini? Ég persónulega kæri mig ekki um mikið fleiri en þessar 3 allra bestu vinkonur sem ég á, aðrir eru bara venjulegir vinir eða kunningjar.
- Hvað með ónettengdu vini þína eru þeir þá aldrei alvöru vinir? Því þeir fá aldrei svona óbrigðul merki um stórkostlega vináttu.
Svo er ömurleikinn falinn í sætum englamyndum, krúttlegum kettlingum, fiðrildum, blómum og smábörnum. Það hlýtur að gera þessi ljótu bréf falleg er það ekki? Hér á árum áður man ég ekki eftir þessum hótunum og bölvunum. Þau settu heldur engin kerfi á annan endann. Það getur gerst í dag. Póstþjónum út um allan heim er oft drekkt í svona bulli og þetta er oft leið til að gera óskunda í netumferð. Umferð verður hæg, diskar fyllast af mikilvægum englamyndum og svona. Tími er tekinn sem hægt væri að nota í eitthvað uppbyggilegra. Til dæmis hringja í vin og segja honum hvað það sé gaman að heyra í honum.
Að lokum er hérna krúttlegur kettlingsengill, sem þýðir að þú hefur verið klukkaður af bloggenglinum og ef þú setur ekki ummæli hjá 45 bloggvinum fyrir kl. 15:00 á morgun muntu þjást af ritstíflu og bloggtregðu í 4 vikur og það mun snjóa fram í júní á næsta ári, bara hjá þér.
Í alvöru! Sendu vinum þínum frekar góða kveðju og slepptu bölvununum og hótununum, hver sem þú ert og svarar alltaf öllum keðjubréfum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.9.2007 | 17:23
Matvendni.
Erfðaprinsinn elskulegur er með matvandari börnum sem ég hef fyrirhitt um ævina. Hann slær undirritaðri (sem barni) við svo um munar. Hann er alinn upp við nákvæmlega sömu reglur og systir hans, sem er alls ekki matvönd. En vegna þess að ég man hvað mér fannst tiltekin fæða vond þegar ég var barn hef ég stundum fullan skilning á hvað honum finnst um tiltekinn mat. En gikksháttur hans gengur samt út yfir allt.
Ég skil til dæmis alveg að hann vilji ekki fitu á kjöti og sitji löngum stundum við að skrapa hvert fitumólikúl frá kjötinu. En það er hreinlega allt. Hann borðar ekki sósur, sem mér finnst algert hneyksli komandi úr fjölskyldu sem gæti lifað á sósum. Hann borðar ekki grænmeti, nema kartöflur og ferskar óeldaðar baunaspírur. Hann borðar bara epli, appelsínur og banana úr ávaxtaríkinu og bara jarðarber og kirsuber úr berjaríkinu. Hann getur alls ekki borðað banana ef það er komin smá arða af brúnum bletti á hýðið, skiptir þá engu þó bananinn sjálfur hafi ekki vott af misfellu.
Þetta þýðir að oft erum við með fulla skápa af fínustu banönum sem eru á hraðbraut í ruslið. Það gengur ekki, mér finnst hræðilegt að henda fullgóðum mat. Svo hér hafa orðið til alls konar réttir með ávöxtum, sérstaklega banönum í. Ofnbakaðir fiskréttir með eplum og banönum. Við vitum ekki betri pizzur en með banana sem aukaálegg. Muffins með banönum og fleiri ávöxtum og auðvitað bananabrauð. Ég bakaði bananabrauð í gær. Það er búið. Alger unun að borða það heitt beint úr ofninum með vænni klípu af smjöri, sem bráðnar ofan í sneiðina.
Bananabrauð3 dl hveiti | Bananarnir eru stappaðir vel. Öllum þurrefnum blandað saman í skál, egg og stappaðir bananar settir út í. Hrært eins lítið og hægt er, bara nægilega til að blandist vel. Deigið sett í smurt jólakökumót. Bakað við 180°C í 50 mínútur (blástursofn). |
Hrikalega einfalt og gott, getur alveg gert venjulegan sunnudag að sérstökum sunnudegi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.9.2007 | 23:32
Kynferðiskynning.
Ég man þarna um árið að Ísland varð frægt í skemmtanaiðnaðinum. Það kom fram í einhverjum þættinum, Sopranos eða einhverju álíka, að íslenskar konur væru lauslátari en allt í heiminum og það væri staðurinn til að sækja heim og fá á broddinn. Eitthvað rámar mig í að Flugleiðir hafi tengst þessu. Ég man þetta ekki nægilega vel.
Samkvæmt einhverri könnun sem varð að frétt á mbl.is eru samt Tyrkir lauslátastir og við einhvers staðar á topp tíu listanum. Las þetta ekki vel, enda ekkert sérlega merkilegt lesefni að mínu mati.
Við höfum samt löngum verið dugleg að hampa "Ísland best í heimi" á alla mögulega kanta: Bestu skáldin, besti stangastökkvarinn, bestu kartöflurnar, bestu nördarnir, fallegasta kvenfólkið og já já endilega höfum það með lauslátasta kvenfólkið, það selur svo vel *blikk blikk*.
Áðan horfði ég á Dr. House og að þættinum loknum eru sýnd brot úr næsta þætti. Meðal annars brot þar sem ung falleg stúlka vill fleygja sér í bólið með háttvirtum lækninum og er að réttlæta það og segir: "Á Íslandi mega stelpur stunda kynlíf 14 ára, af hverju ekki hér?". !!!!!!!
Mig rak í rogastans. Hverjum í grængoluðum golþorskum finnst þetta sniðug landkynning og kemur þessu á framfæri til notkunar í afþreyingarefni - vinsælu? Svo erum við hissa á að það gangi ekkert að herða refsingar gagnvart barnaníði og kynferðisofbeldi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.9.2007 | 22:04
Hvað hefur orðið um laugardagskvöldin?!
Laugardagskvöld eru indæl kvöld. Sunnudagskrossgátan, kaffibolli (lesist: kaffibollar) og jafnvel líkjör. Það gerist bara ekki betra. Til þess þarf að fá sunnudagsmoggann, sem er dreift síðla laugardags. Hvaða merkingu má leggja í orðið síðla? Ég er með helgaráskrift að Mogganum og las um dreifingu Morgunblaðsins á vefnum. Þar stendur og hefur staðið í að minnsta kosti eitt og hálft ár:
"Við gerum okkar ýtrasta til þess að koma blaðinu til áskrifenda eigi síðar en klukkan sjö að morgni alla útgáfudaga nema sunnudaga, en sunnudagsblaðinu er dreift síðla laugardags.
"
Ég hef oft velt fyrir mér og reynt að fá upplýsingar um hvað síðla einhvers dags, í þessu tilfelli laugardags, þýði. Ég persónulega legg þann skilning í að þetta sé seinni hluta laugardags, þ.e. til kl. 19:00 eða svo. Þá er komið kvöld hjá mér. Spyrji maður áskriftardeild Mbl þá fást ekki svör og helst skipt um umræðuefni. En þolinmæðin þrautir vinnur allar og á endanum kríjaði ég út það svar að það teldist allt til miðnættis.
Ég spyr bara.... Hvað varð um laugardagskvöldin?!!!!!! Nú er bara laugardagsnótt - til u.þ.b. 6 að morgni laugardags. Þá tekur við laugardagsmorgunn - svona fram að hádegi eða svo. Síðan má ætla að eftir það sé laugardagurinn sjálfur og hann getur bara ekki náð lengra en til kl. 19:00 með góðu móti. En áskriftardeildin er búin að lengja hann til 23:59.
Það eru engin laugardagskvöld lengur!! Ekki lýgur Mogginn. Ég vil fá laugardagskvöldin aftur!!! og sunnudagsmoggann samkvæmt mínu síðla.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Tenglar
Staldrið
Reglulegir viðkomustaðir
- OKUR Okrið á Íslandi
- Leirbulla
- Einherji
- Silfrið
- Víkverjavofan
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Myndaalbúm
Nýjasta vitleysan
Ég er...
Latte!
og samanstend af tvöföldum espresso og flóaðri mjólk.
Hvernig kaffi ert þú eiginlega?