Leita í fréttum mbl.is

Ég man þá tíð...

Einu sinni var ég barn og gekk í skóla.  Það er frekar langt síðan.  Þá var "salur" á föstudagsmorgnum og allur skólinn þuldi Faðir vor...  í kór.  Ég var ekki alin upp á heimili trúfólks og kunni ekki "Faðir vorið" vel fyrr en um 9 ára aldur.  Ég þuldi með þær setningar sem ég kunni og spáði svo sem ekkert sérstaklega í hvort maður ætti að kunna bænina eða ekki.  Skipti mig engu.  Kristinfræði var kennd fyrst í 10 ára bekk minnir mig.  Mér fannst það voða skemmtilegar sögur, biblíusögurnar.  Minnist þess ekki að þær hafi skaðað mig. 

Þó foreldrar mínir væru trúlausir þá truflaði það þau ekki að kristinfræði væri kennd og ekki heldur að námsefnið væri ekki fjölmenningarlegt.  Það var heldur ekki tíðarandinn.  Þau sögðu mér heldur ekki að ég væri trúlaus af því þau væru trúlaus.  Það var ekki trúboð í skólanum með þessari kennslu í kristinfræði.  Foreldrar mínir boðuðu heldur ekki trúleysi heima.  Trú var ekkert sérstaklega mikið rædd.  Mér var sama um hana og hún var ekki það sem brann á þeim.  Einn daginn fullyrti ég að ég tryði á Guð og annan að ég gerði það ekki.  Þannig gekk þetta fyrir sig, engum til ama.

Þegar kom að fermingu var ég spurð hvort ég vildi fermast og þá fór nokkur trúarumræða fram á heimilinu.  Ég var harðákveðin í því þá að ég væri ekki trúuð og tók upplýsta ákvörðun um að fermast samt.  Algerlega viðskiptalegs eðlis.  Þá var það bara þannig.

Þegar ég lít til baka, þá verð ég að segja að þetta var fínt, hefði ekki getað verið betra.  Enginn hvorki trúaður né trúlaus sagði mér hvað ég ætti að vera.  Ég hafði frelsi til að velja sjálf.  Þegar ég skoða þessi læti í dag vegna trúarbragðafræðslu finnst mér foreldrar vera búnir að búa sér til vandamál.  Það eru ekki börnin sem eru trúlaus og þeirra réttur að sleppa við þessarar-trúar- eða hinnar-trúarfræðslu.  Það er bara ekki kominn sá tími í lífi þeirra að þau séu fær um að mynda sér almennilega skoðun á því fyrr en fer að nálgast unglingsárin.  Það eru foreldrarnir sem eru trúlausir og boða það í nafni barnanna sinna.

Mín skoðun er sú að börn eigi að fá að leika og læra, í friði og hafa frelsi til að máta sig í skoðanirnar.  Vera trúlaus einn daginn og trúuð hinn.  Seinna taka þau örugg og sátt afstöðu í aðra hvora áttina.  Það er þá þeirra val.  Ætli það séu margir trúarhóparnir í heiminum sem veita þeim það frelsi? Nú eða trúleysingjahóparnir má eins spyrja?  Ég held að þeir séu afar fáir, því miður.  Ég þakka fyrir að hafa fengið það tækifæri.


mbl.is Mannréttindadómstóll gagnrýnir kristinfræðikennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvort sem þau orða það beint eða ekki í kristnifræði að þá er þetta samt viss áróður. Það að hafa kristnifræði en ekki búddafræði eða islamfræði hlýtur að vera vegna þess að það er vonast eftir því að flest börnin verði kristin. Auðvitað er hægt að blása upp mál og gera meira mál úr þeim, finnst samt æskilegra að hafa almenna trúarbragðafræði heldur en gömlu kristinfræðina. Annars er ég trúlaus, ef ég eignast börn þá mun ég líklega fara svipaða leið og foreldrar þínir. Ég ætla ekki að predika að trúarbrögð séu slæm eða að trúleysi sé rétta valið. Held að flestir trúleysingjar sem ég þekki séu á sama máli. 

Var ekki boðið upp á borgarlega fermingu á þessum tíma? Fagna því einmitt að það sé orðið algengt. Góð millileið fyrir krakkana, að fá veislu og gjafir eins og hinir í stað þess að ganga í trúarbrögð á röngum forsendum. 

Geir Jónsson (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 03:06

2 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Eg held að enginn sé að amast yfir trúarbragðafræðslu. Aftur á móti eru margir á móti trúboði í skólum og það er það sem á sér stað. Þau fá þar af leiðandi ekki möguleika til að mynda sér skoðun sjálf. Eg er trúlaus og samkvæmt mannréttindasáttmálanum er ekki leyfilegt að troða trúboði á börnin mín. Finnst þér að ég eigi að taka því þegandi að þessi mannréttindi séu brotin? Ég fékk enga fræðslu um humanistma í íslensku skólakerfi. Enda var ég eins og álfu útúr hól þegar ég kom til annarra landa. Eg vil að hlutlaus kennsla um trúarbrögð og trúleysi eigi sér stað í grunnskólanum, þannig að börnin geti tekið ábyrga afstöðu. Þau geta það ekki í dag.

Ásta Kristín Norrman, 7.7.2007 kl. 03:08

3 identicon

Gleymdi einu...

Ég man eftir því þegar ég var krakki að þá ákvað vinur bróður mins að fermast ekki, sá eini af árgerðinni í bænum. Sumir foreldrar voru fljótir að koma með yfirlýsingar eins og að hann væri vandræðaunglingur og ætti örugglega eftir að enda í dópinu og glæpum. Ótrúlegt hversu öfgafullur hópþrýstingur getur orðið, líka hjá fullorðnu fólki.

Annars voru foreldrar hans þekktir fyrir að vera mjög trúaðir, jafnvel öfgafullir. Ætli það hafi ekki ýtt honum í hina áttina. 

Geir Jónsson (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 03:12

4 Smámynd: krossgata

Nei, það var ekkert til sem hét borgaraleg ferming þegar ég var barn.  Það var afar sjaldgæft að einhver veldi að fermast ekki.  Ég minnist ekki að þau börn hafi verið dæmd fyrir það.  Það má þó alveg vera.  Mér hefur líklega bara þótt það gott hjá þeim og ekki tekið eftir ef einhver fordæmdi það.

En af því að foreldri sé trúlaust þá sé það mannréttindabrot að segja börnum þeirra frá trúarbrögðum kaupi ég ekki.  Skoðanir foreldranna eru ekki skoðanir barnanna.  Þegar ég var barn var ekkert kennt annað en kristinfræði og í raun ekki sagt frá öðrum trúarbrögðum nema svona til hliðar í mannkynssögu.  Það var ekkert trúboð, en í allri orðræðu var gert ráð fyrir að allir væru í þjóðkirkjunni, allir myndu fermast, allir hefðu fengið barnaskírn.  Ósköp eðlilegt þannig var staðan á þeim tíma.  Sögukennsla og kristinfræðikennsla var má segja að hafi verið bara alveg eins.  Það heitir trúarbragðafræði sem börnin mín læra og fá þau fræðslu um kristni að miklum meiri hluta, en líka allflest önnur trúarbrögð.  Nokkrar vikur um þau helstu.  Það er ekkert trúboð í skólanum.

Við erum ekki í þjóðkirkjunni, en mínum börnum stóð til boða að fermast þar og ganga í hana.  Það er stórmál ef þú hefur ekki fengið barnaskírn og þau nenntu því ekki.  Svo þau fengu sínar velfarnaðaróskir inn í unglingsárin annars staðar og sína veislu og allt það.  En annað barnið mitt sótti fermingarfræðslu með sínum bekkjarfélögum samt, þá var það þannig að fermingarfræðslan var hluti af skólatímanum og presturinn veitti hana.  Þegar það barn var á fermingaraldri voru þau 3 í árgangnum sem ekki ætluðu að fermast.  Hitt barnið mitt sótti ekki fermingarfræðslu með bekkjarfélögunum þar sem búið er að flytja hana út úr skólanum.  Honum var þó frjálst að mæta, nema þegar farið var í einhverjar ferðir út úr bænum.  Þegar hann var á fermingaraldri (núna) þá voru þau 10 í árgangum sem ekki fermdust.  Hvorugt barnanna minna varð fyrir aðkasti af því að fermast ekki.

Ég verð því að segja að ég get ekki séð að það sé trúboð í skólanum.  Það er trúarbragðafræðsla.  Það má kannski segja að það sé trúboð eða því sem líkast í fermingarfræðslunni, en það er algerlega eðlilegt.  Þá er barnið búið að ákveða að fermast, staðfesta skírnarheitið.

krossgata, 7.7.2007 kl. 17:07

5 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Hvernig þú elur upp þín börn er þitt frjálsa val. það er þó ekki þitt frálsa val að ákveða hvernig ég el upp mín börn. Það er einmitt þetta sem dómurinn fjallar um. þú mátt hafa þín skoðun og ég mína. Báðar eru jafn réttháar. Það er réttur foreldra að ákveða í hvaða lífssýn þau ala upp sín börn. þess vegna eru brotin mannréttindi þegar mín skoðun er ekki virkt á við þína. Þó svo að þér finnist rétt að gera eins og þú gerir, er mannréttindadómstóllin á því að það þurfi ekki að gilda fyrir mín börn. Ég er annars ekki á móti trúarbragðafræðslu eins og ég sagði áður. Ég vil bara hlutlausa fræðslu og ég vil fræðslu um humanistma líka inní grunnskólann. þá geta krakkarnir tekið ákvörðun út frá því sem þau hafa lært, en ekki út frá því sem foreldrar vilja. Svo mundi ég vilja að þau væru 1-3 árum eldri þegar þau taka þá ákvörðun, því þá hafa þau öðlast meiri þroska til að taka þessa stóru ákvörðun. Kirkjan hefur aftur á móti barist gegn því, kirkjan vill gjarnan að krakkarnir fermist áður en þau fara að pæla í hlutunum. Mannréttindadómstóllinn dæmdi málið þannig að í Noregi sé trúboð. Ég hef haft börn í norskum grunnskóla og ég get alveg sagt að eigin reynslu þar sem dóttir mín yngsta er í 3. bekk hér á Íslandi, að trúboðið er mun alvarlegra hér á Íslandi en það sem börnin mín upplifðu í Noregi.

Ásta Kristín Norrman, 7.7.2007 kl. 21:04

6 identicon

Ég verð að taka undir allt það sem Geir skrifar fyrir utan fermingalausa bróðurinn.

Ragga (IP-tala skráð) 7.7.2007 kl. 22:58

7 Smámynd: krossgata

Það er verst að sonur minn er búinn að skila bókinni í trúarbragðafræði síðan í vetur og ég get því ekki flett upp hvað þau tóku fyrir í vetur.  Ég les lauslega yfir allt námsefni sem börnin mín fá, en ég man ekki nákvæmlega hvað var farið yfir.  Ég man að það var kafli um kristni, gyðingdóm, islam, búdda og eitthvað fleira.  Spuringarnar voru mikið á þá leið að börnin áttu að segja álit sitt á hinu og þessu:  "Af hverju heldurðu að þetta sé sagt svona", osfrv.  Alveg hreint ágætis bók, þannig lagað.  Afar hlutlaus, en frekar þurr.

Því verð ég að segja út frá því hvað er kennt í skóla barnanna minna að þar er ekki trúboð, heldur trúarbragðafræðsla.  Það er kennt um hin og þessi trúarbrögð.  Ég man ekki eftir að hafa séð kafla um húmanisma, en það má vel vera að eitthvað hafi verið nefnt í kafla um önnur trúarbrögð.  Kannski á það eftir að koma, ekki gott að segja.

Ég fyrir mitt leyti vil hafa trúarbragðafræðslu í skólanum og þar á meðal má gjarnan vera fræðsla um trúarbrögð eða viðhorf sem ekki snúast um guði.  Ég kæri mig ekki um að skólinn ætlist til að börnin taki afstöðu með eða móti neinu af þessum skoðanakerfum.  Ég hef ekki á móti því að börnin mín læri hin og þessi trúarljóð, en sé enga ástæðu til að þau læri hinar og þessar bænir.  Ég hef ekkert á móti því að þau taki þátt í leikþáttum af rótum hinna og þessara trúarbragða.  Ég hef ekki á móti því að þau föndri eða skreyti fyrir kristnar hátíðir né væri ég á móti því að þau tækju þátt í verkefnum fyrir hátíðir annarra trúarhópa.  Þetta gerir ekkert annað en auka víðsýni þeirra.

krossgata, 7.7.2007 kl. 23:59

8 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ég man ekki eftir að kristinfræði hafi staðið mér neitt sérstaklega fyrir þrifum.  Ég fermdist og leit á það eins og náttúrulögmál og það var viðskiptalegs eðlis.  Dætur mínar þrjár ákváðu sjálfar og tvær þeirra fermdust ekki en sú sem gerði það var með það á hreinu að það væri vegna gjafa og tilstands.

Ég vil að börn fái almenna fræðslu um trúarbrögð og húmanisma í skólum.  Ég vil að þau séu hvatt til að spyrja, velta fyrir sér og draga sínar eigin ályktanir.  Að festast í viðjum bibilíusagna er vont, húmanisk siðferði er bráðnauðsynlegt hverri manneskju.

Amen

Jenný Anna Baldursdóttir, 8.7.2007 kl. 00:20

9 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Eg á 3 dætur. Tvær voru á fermingaraldir þegar sú 3. byrjaði skólagöngu. Þær 2 elstu eru skýrðar af gömlum vana, svona eins og venjulegast er á Íslandi, en 3 stelpan kom ekki fyrr en ég var að verða 40 ára. Það voru búnar að vera miklar umræður um homma, kvennpresta og kirkjuna í þjóðfélaginu áður en sú litla fæddist og ég fékk meira og meira ógeð á kirkjunni. Þegar sú litla fæddist, varð mér hreinlega óglatt við tilhugsunina um að standa upp í kirkjunni og lofa því að ala barnið mitt upp í kristinni trú. Þá gengum við úr þjóðkirkjunni og eftri það hef ég þurft að berjast fyrir þeim rétti mínum að fá að ala börnin mín upp trúlaus. Eins og ég sagði áður, hef ég ekkert á móti að þau fræðist um trúarbrögð, en þegar dóttir mín kom heim úr skólanum 6 ára og sagði okkur við kvöldverðrborðið að guð hefði skapað heiminn og hana sjálfa, komu miklar mótbárur frá eldri systrunum. Sú elsta var í 10 bekk og var að læra um stóra hvell,(takið eftir að það er ekki fyrr en í 10 bekk sem þau eru talin nógu þrostkuð til að læra um það) og reyndi að útskýra fyrri litlu systur hvernig heimurinn hefði orðið til. Sú litla fór í skólann daginn eftir og full af tilhlökkun ákvað hún að reyna að skýra þetta út fyrir krökkunum og kennaranum hvernig hlutirnir hefðu orðið til. Það tókst ekki betur en svo að 6 ára barnið sem talaði mjög svo bjagaða íslensku( við vorum búin að búa hér í nokkra mánuði) lendi í því að rökræða trúmál við allan bekkinn. Hún fékk enga aðstoð frá kennaranum til að skýra mál sitt. Hún kom heim og spurði mig hvort það geti verið að fólk í Svíþjóð þar sem hún hafði alist upp, hafi bara ekki heyrt um guð, því bæði kennarinn og allir krakkarnir í bekknum voru sannfærð um að guð hafi skapað heiminn.

Hvaða forsendur hafa svona lítil börn til að taka á svona málum?

Ég fékk lánaða kristinfræði bókina, til að kynna mér hvað þau voru að læra um. Þetta voru þessar venjulegu sögur úr biblíunni, settar fram algjörlega gagnrýnislaust. Til dæmis var þar sagan um Noa og flóðið og sagt að guð hafi ákveðið að það kæmi mikið flóð sem drekkti öllum nema þeim á örkinni, vegna þess að fólkið væri vont og gerði ekki eins og guð sagði. Síðan voru spurningar í lok kaflans þar sem þau áttu að velta ýmsu fyrir sér. Þar var engin spurning um hvort þessi hrottaskapur hafi verið siðferðislega réttur. Er leyfilegt að drekkja þeim sem gera ekki eins og guð segir. Síðan voru spurningar eins og hvað meinar guð með að hann sé ljós lífsins? Ég get ekki svarað þessari spurningu, og ég held maður verði að trúa að guð til og að hann sé ljós lífsins til að geta svarað þessu.

Ég vil minna á að þetta er námsefni fyrir 1-3 bekk og er þetta fyrir krakka sem eru ekki það þroskuð að þau geti tekið á móti þessu án gagnrýni. þess vegna verður þetta að vera sett fram á gagnrýnin hátt. Það er spurning hvort þau séu yfirhöfuð nógu þroskuð til að læra um trúarbrögð á þessum árum. Það má að mínum dómi frekar kenna þeim siðfræði, það er að vera góð við hvort annað, sameiginlega ábyrgð fyrir að allir hafi það gott í skólanum og enginn sé útundan og þess háttar.

Síðan má kenna þeim kristinfræði og önnur trúarbrögð og um humanistma þegar þau eru aðeins eldir og geta myndað sér sjálfstæða skoðun. Eins og kennslan er núna er hún ekkert nema trúboð.

Ásta Kristín Norrman, 8.7.2007 kl. 10:23

10 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Ég gleymdi að taka það fram að þessar bækur sem kenndar eru í kristinfræði eru náttúrulega samdar af prestum. Það hjálpar ekki beint með hlutleysið.

Ásta Kristín Norrman, 8.7.2007 kl. 10:27

11 Smámynd: krossgata

Ég hefði nú rætt við kennarann með tveimur hrútshornum um þessa atburði í skólanum.  Hann/hún á ekki að láta samræður sex ára barna leysast upp í óstjórn og eitthvað "einn gegn öllum". 

Annars er alveg hægt að skýra út fyrir börnum að það sé mismunandi hvernig trúarbrögð og vísindi útskýra tilurð heimsins.  Það truflaði mig ekki að vita að mamma og pabbi bjuggu mig til og að kennt var í skólanum að guð skapaði allt.  Það hefur heldur ekki valdið mínum börnum vandræðum.  Börn geta verið mög umburðarlynd gagnvart mismunandi skoðunum sé þeim sagt frá þeim.

krossgata, 8.7.2007 kl. 13:26

12 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Auðvitað ræddi ég við kennarann. Það er alveg rétt börn geta verið mjög umburðalind, en þau geta líka verið grimm. Það að eitthvað hafi ekki truflalð þín börn, er mjög gott, en við erum meðlimir af EES og við getum beðið þar til við fáum svipaðan dóm á okkur og norðmenn fengu, en mér finnst þó æskilegra að þetta væri lagað hér strax. Eða á ég að skilja þig svo að á meðan þú og þín börn verða ekki fyrir óþægindum, þá sé enginn ástæða til að gera neitt í málinu?

Ásta Kristín Norrman, 8.7.2007 kl. 13:58

13 Smámynd: krossgata

Jah, eins og ég sagði í upphafi, þá sé ég þetta meira sem foreldravandamál.  Ef börnin fengju í raun að ráða því sjálf hvort og hvenær þau trúa og trúa ekki, ef þau fengju í friði að máta sig í skoðanirnar, ef þau fengju líka frið til að vera sama og láta þetta skipta ekki máli þá væri þetta ekki vandamál. 

Ég sé heldur ekki trúboð í skólunum, enda virðast kennarar svona í heildina ekkert sérstaklega áhugasamir um trú.  Ég sé hins vegar ekkert að því að bæta kennslu í trúarbragðafræði (þ.m.t. skoðanakerfum sem ekki fjalla um guði) og berjast fyrir því.  Veitir sjálfsagt ekki af.  Það hafa verið gerðar athuganir á trúarbragðafræðslu í grunnskólum hér og þeir koma ekkert sérstaklega vel út úr því.  Það lítur út fyrir að á ynsta stigi sé afskaplega lítil kennsla, þá helst um kristinfræði og islam ef hún er til staðar.  Miðstigið kennir eitthvað svipað og eru frædd líka um ásatrú.  Á unglingastigi er kennd trúarbragðafræði og er víst algengt að ekkert sé kennt í þessum fræðum í 9. og 10. bekk.  Ég sé bara ekki trúboðið.  Það er ekki nógur áhugi eða kennarar brennandi af trú til að þessu geti verið snúið upp í trúboð.

krossgata, 8.7.2007 kl. 14:52

14 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Við skulum þá bara vona að þú hafir ekki mikið með mannréttindamál að gera, því kennarar eru bara eins og aðrir, misjafnir eins og þeir eru margir.

Ásta Kristín Norrman, 8.7.2007 kl. 21:33

15 Smámynd: krossgata

Hmmm.  Ég skil þetta síðasta komment ekki.  Nú ef þú átt við að ég sé á móti mannréttindum þá... 

  • Fæ ég ekki séð hvernig það er að vera á móti mannréttindum að finnast ómarkviss og lítil kennsla í trúarbrögðum ekki vera trúboð, (trúboðar eru einmitt ákaflega markvissir og ýtnir). 
  • Ég get ómögulega séð að það að vilja ekki banna trúarbragðafræðslu í skólum sé eitthvað að vera á móti mannréttindum. 
  • Ég sé ekkert nema gott við að trúarbragðafræðslan verði bætt og hún gerð markvissari og fjölbreyttari og sé ekki hvernig það er að vera á móti mannréttindum.
  • Það að vera á móti því að skólinn ætlist til þess að barnið taki afstöðu varðandi trúarbrögð fæ ég alls ekki séð hvernig er að vera á móti mannréttindum.
  • Það að vilja að börn fái að leika og læra, máta sig í ýmsar skoðanir í friði sé ég ekki hvernig er að vera á móti mannréttindum.

Mér finnst aftur á móti það minnka víðsýni og þrengja sjónarhorn ef engin trúarbragðafræðsla er.  Trúarbrögð heimsins eru samofin sögu þjóða og verður vart hjá því komist að fræðast um þau ef maður er að fræðast um sögu og menningu annarra þjóða.  Mér finnst það einmitt mannréttindi að fræðast um sögu og menningu, en ekki bar sumt í sögu og bara sumt í menningu þjóða.

Með því að bæta trúarbragðakennslu, gera markvissari og fjölbreyttari á ég við að skýrari rammi sé settur utan um viðfangsefnið = kennararefnið verði skýrara og það sé ekki undir hverjum og einum kennara hvað er kennt og hvernig (þannig er það núna).  Það sé bætt við trúarbrögðum/skoðanakerfum sem fjalla ekki um guði. 

Með "kennarar í heildina" á ég við meiri hluti kennara, ekki alla.

krossgata, 9.7.2007 kl. 16:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

krossgata
krossgata
Sérleg áhugamanneskja um krossgátur, þá sérstaklega sunnudagsgátu mbl.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 16
  • Frá upphafi: 10830

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 16
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband