Leita í fréttum mbl.is

Hvað hefur orðið um laugardagskvöldin?!

Laugardagskvöld eru indæl kvöld.  Sunnudagskrossgátan, kaffibolli (lesist: kaffibollar) og jafnvel líkjör.  Það gerist bara ekki betra.  Til þess þarf að fá sunnudagsmoggann, sem er dreift síðla laugardags.  Hvaða merkingu má leggja í orðið síðla?  Ég er með helgaráskrift að Mogganum og las um dreifingu Morgunblaðsins á vefnum.  Þar stendur og hefur staðið í að minnsta kosti eitt og hálft ár:

 "Við gerum okkar ýtrasta til þess að koma blaðinu til áskrifenda eigi síðar en klukkan sjö að morgni alla útgáfudaga nema sunnudaga, en sunnudagsblaðinu er dreift síðla laugardags.
"

Ég hef oft velt fyrir mér og reynt að fá upplýsingar um hvað síðla einhvers dags, í þessu tilfelli laugardags, þýði.  Ég persónulega legg þann skilning í að þetta sé seinni hluta laugardags, þ.e. til kl. 19:00 eða svo.  Þá er komið kvöld hjá mér.  Spyrji maður áskriftardeild Mbl þá fást ekki svör og helst skipt um umræðuefni.  En þolinmæðin þrautir vinnur allar og á endanum kríjaði ég út það svar að það teldist allt til miðnættis.  W00t

Ég spyr bara.... Hvað varð um laugardagskvöldin?!!!!!! Nú er bara laugardagsnótt - til u.þ.b. 6 að morgni laugardags.  Þá tekur við laugardagsmorgunn - svona fram að hádegi eða svo.  Síðan má ætla að eftir það sé laugardagurinn sjálfur og hann getur bara ekki náð lengra en til kl. 19:00 með góðu móti.  En áskriftardeildin er búin að lengja hann til 23:59.

Það eru engin laugardagskvöld lengur!!  Ekki lýgur Mogginn.  Woundering  Ég vil fá laugardagskvöldin aftur!!!  Crying og sunnudagsmoggann samkvæmt mínu síðla.


Að bíða.

Þegar ég var lítil, svona sex ára eða svo fannst mér skriftin sem mamma skrifaði vera algert undur.  Ég var löngu orðin læs, en ég gat ekki lesið skriftina hennar.  Hún kallaði það skrifstafi.  Mér fannst þetta mikill leyndardómur og gat varla beðið eftir að verða fullorðin því þá myndi ég geta skrifað og lesið skrifstafi og talað útlensku.  Ég taldi að skrifstafir gætu jafnvel verið útlenska.

Ég sat oft löngum stundum og skrifaði frumsamda skrifstafi og var alveg sannfærð um að þegar ég yrði fullorðin myndi ég geta lesið alla spekina sem væri falin í skrifstöfunum mínum.  Mig minnir að við höfum farið að læra lykkjuskrift (þá var ekki kennd ítölsk stafagerð) um 10 ára.  Ég komst að því að ég hafði ekki skrifað neina speki þegar ég var sex ára og skrifstafir voru ekki útlenska.

Oft hef ég þurft að bíða um ævina og þá hef ég gjarnan bullað eitthvað á blað.  Núna er ég að bíða.  Ekki eftir að verða fullorðin, er ekki viss um að ég verði fullkomlega fullorðin nokkurn tíma.  Ekki eftir að skilja skrifstafi og útlensku, það er löngu komið.  Ég er að bíða eftir að verða amma aftur.  Nú er settur dagur liðinn og ekkert að gerast hjá dóttlunni.

Ég er búin að stinga upp á öllum ráðum sem mér dettur í hug: 

  • Rótsterkt kaffi  (hef aldrei haft trú á því, drakk rótsterkt kaffi í 9 mánuði með mín börn, þau komu samt eftir heila 9 mánuði)
  • Gönguferð (trúi því ekki, maður gengur alla meðgönguna)
  • Hláturskast (og reyni að finna alfyndnustu brandara sem til eru)
  • Stórhreingerningar
  • Slökun

Allt hefur reynst gagnslaust.  Nú hefst biðin fyrir alvöru.  Það gæti þýtt að maður færi jafnvel að yrkja.  Kannski einhver lumi á óbrigðulu ráði, sem er ekki heilsuspillandi?


Nauðgunarlyf á lyfjaskrá - af hverju?

Heiða nokkur hefur vakið athygli á því á blogginu sína að hún hafi kynnt sér svefnlyfið Flunitrazepam. Flestir kannast betur við Rohypnol eða nauðgunarlyfið en Flunitrazepam er sama lyfið undir öðru nafni.

Heiða skrifaði m.a.: 

''Þetta tiltekna svefnlyf hefur enga sérstöðu sem er til bóta fyrir þá sjúklinga sem þurfa á svefnlyfi að halda. Á markaðnum eru tugir svefnlyfja sem gagnast sjúklingum alveg jafn vel  og sem ekki hafa þá "kosti" sem nauðgarar sækjast í, þ.e. minnisleysi og almennt rænuleysi til að veita nauðgara mótspyrnu.

Augljósasti ''kostur'' lyfsins er að sjálfsögðu sá að nauðgarar geta verið nokkuð vissir um að  fórnarlambinu er nánast ómögulegt að kæra eða framfylgja kæru vegna þessa minnisleysis. Lyfið er stundum notað við dáleyðslu vegna þess að það er nánast hægt að fá fólk til að gera hvað sem er undir áhrifum þess.'' 

Á síðu Heiðu eru nánari og ítarlegri upplýsingar um lyfið og svör sem hún fékk frá Landlæknisembættinu í þessari ''könnunarferð'' sinni.

Þrátt fyrir að auðveldlega sé hægt að nota önnur lyf fyrir sjúklinga í stað Flunitrazepam, hefur lyfið ekki verið tekið út af lyfjaskrá.

Heiða hefur nú beðið okkur (bloggara) um aðstoð til að vekja athygli á málinu, með því að blogga um það og/eða senda Lyfjastofnun tölvupóst. Hann má vel vera saminn af ykkur sjálfum eða bara afrita textann hér undir:  

Svefnlyfið Flunitrazepam hefur enga jákvæða virkni fyrir þá sjúklinga sem neyta þess fram yfir þá tugi annara svefnlyfja sem eru á lyfjaskrá. Virka efnið í lyfinu hefur þó þau neikvæðu áhrif að af því skapast algjört minnisleysi og getuleysi til að greina umhverfi sitt. Þessi atriði hafa valdið því að lyfið hefur þann vafasama heiður að vera þekkt sem "nauðgunarlyf" (Date-Rape). Lengi hefur tíðkast, hér á landi sem annars staðar, að lauma því í drykki fólks til að ná fram áðurnefndu minnis- og getuleysi og ef allt fer samkvæmt áætlun fylgir nauðgun í kjölfarið. Það er nánast ógerlegt fyrir fórnarlamb þessa að kæra til lögreglu sökum minnisleysis. Árið 2006 var Flunitazepam ávísað í ríflega 11.000 skömmtum. Þar sem lyfið hefur enga sérstöðu til bóta fyrir þá sjúklinga sem nota það fer ég þess á leit að Flunitrazepam verði tekið af lyfjaskrá hér á landi hið snarasta.

Öryggi barnanna okkar sem og annarra ástvina hlýtur að vega þyngra en svo að nauðsyn teljist að hafa þetta hættulega lyf í umferð

------------------------------------------- 

Getur einhver upplýst mig/okkur/alla um af hverju í ósköpunum þessi lyf (Rohypnol og Flunitrazipam) er á lyfjaskrá þegar það hefur enga kosti umfram önnur svefnlyf en til nauðgana?  Af hverju var lyfið tekið til sölu á Íslandi yfir höfuð (það er nú langur ferill og fyrirhöfn að koma lyfi á lyfjaskrá á Íslandi)?

Ef einhvern langar til að spyrja hvort eigi þá ekki bara að banna öll svefnlyf þá er svarið:  Það á að banna öll lyf sem hafa sömu verkun og Rohypnol og Flunitrazipam.  Eins og marg oft hefur verið bent á þá eru til önnur svefnlyf sem hafa nákæmlega tilætlaða virkni fyrir þá sem þurfa að neyta svefnlyfja.


Reglusemi.

Þegar ég var ung og já bara allt fram á þennan dag hefur orðið reglusemi farið í taugarnar á mér.  Það hefur þó ekki gert mér neitt.  Ég er bara haldin upplýstum meðvituðum fordómum gagnvart því.  Þetta kemur til af því að orðinu hefur oft verið lævíslega beitt til að gera lítið úr fólki.

Í gegnum tíðina þegar ég hef rætt fólk sem eldra fólk í minni fjölskyldu þekkir ekki hefur oft hljómað setningin:  Er hann/hún ekki reglusöm/-samur?  Í uppreisnaranda unglingsáranna þegar maður var með ofvaxna réttlætiskennd og allur heimurinn á móti manni ákvað ég alltaf að verið væri að dylgja með það að hann eða hún væru ekki fínn pappír.  Þetta var nú bara ósköp sakleysisleg spurning og ekki ætlað að dylgja neitt.  En þessi upplifun unglingsáranna hefur einhvern veginn lifað í mér og mér er illa við þetta orð.

Ég hef nefnilega kynnst alls konar fólki gegnum tíðina.  Reglusömu fólki í þeirri merkingu sem eldra fólkið lagði í orðið:  drekkur ekki, reykir ekki, er stundvís, er í vinnu/skóla osfrv.  Sumt af þessu reglusama fólki hefur skort aðra kosti eins og sveigjanleika, umburðarlyndi, kímni og er leiðinlegt jafnvel illa innrætt.  Sumt ekki.

Ég hef líka kynnst fólki sem þetta sama eldra fólk mitt myndi kalla óreglusamt og fitja upp á trýnið:  drekkur (sumir í óhófi), reykir (sumir í óhófi), hefur mætt of seint og sumir hreinlega óstundvísir (óstundvísi pirrar mig reyndar), flestir hafa þó stundað vinnu eða skóla, en ég hef líka kynnst atvinnulausu fólki og það hefur ekkert með þessa reglusemi eða óreglusemi að gera.  Sumt af þessu óreglusama fólki hefur verið indælismanneskjur.  Þar stendur hnífurinn í kúnni, því þá finnst mér það ekki skipta máli hvort fólk drekkur rauðvín með matnum öðru hvoru, hvort það reykir eða hvort það hefur sofið yfir sig einu sinni eða tvisvar og finnst enginn hafa rétt á því að fitja upp á trýnið og afgreiða manneskjuna sem eitthvað síðri pappír.

Ég hef því átt það til að snúa upp á mig og snúa út úr og segja fólk afar reglusamt, t.d.: "Já hún Sigga er sko reglusöm og reykir alltaf eina sígarrettu á 2ja tíma fresti yfir vökutímann og fær sér alltaf rauðvín með matnum annan laugardag í mánuði þegar þau hjónin eiga rómantískan dag sér til heiðurs og fær sér alltaf í glas á árshátíðinni, sem hún mætir venjulega hálftíma of seint á." eða "Nei hann Lúlli er mjög óreglusamur og er afar óreglulegt og sjaldgæft að hann eigi jákvætt orð um náungann."

En líkast til er þetta allt saman ákaflega einfalt og ómerkilegt.  Ég nefnilega er afar reglusöm og fæ mér reglulega rauðvín með mat, reyki jafn og þétt yfir sólarhringinn mjög skipulega og er með eindæmum stundvís.  Greinilega finnst mér bara gefið í skyn að ég sé eitthvað gölluð þó ég um mig frá mér til mín hafi hreinlega ekki komið upp í umræðunni.  Svona er maður nú hégómlegur.


Aldrei féll henni verk úr hendi.

Stundum velti ég fyrir mér hvað muni verða skrifað um mann að manni gengnum (ef þá eitthvað).  Það var stundum sagt um myndarlegar húsmæður í gamla daga þegar þær voru horfnar á vit feðranna:  "Aldrei féll henni verk úr hendi".  Ég á ekki von á að það verði sagt um mig.  Manneskju sem tekur sér náttfatadag tvisvar sinnum í mánuði og dekrar við sína sérvisku á einn eða annan hátt.

Ég vil samt benda á að núna akkúrat er ég að sjóða rabarbarasultu og er alveg hrikalega húsleg og allt.  Í gær týndi ég ber og ef ég verð ekki búin að gúffa þeim öllum í mig á morgun eða hinn er hugsanlegt að ég geri líka sultu úr þeim.  Ekki nóg með það heldur snaraði ég fram rabarbara-rauðlauksmauki fyrir tengdó áðan og hún fór sæl heim með þessa tilraun (hennar hugmynd reyndar - útfærð af mér Cool ).

Svo ef fólk minnist haustdaga þegar það minnist mín getur það alveg skrifað í eftirmælin:  Aldrei féll henni verk úr hendi.  Grin  En nú ætla ég að koma sultunni í krukkur og fá mér brauð með smjöri og volgri sultu.  Happy


Útlenskir bragðlaukar

... eru eitthvað vanþróaðir.  Fyrir það fyrsta að hafa ekki uppgötvað almennilegan lakkrís, sem eins og allir vita fæst bara á Íslandi.  Hvergi annars staðar hef ég rekist á almennilega lakkrísframleiðslu.  Og svo að vera ekki fyrir löngu búin að átta sig á þeirri eðalblöndu sem lakkrís og súkkulaði er. 

Ég hef unnið og vinn með slatta af fólki af erlendu bergi brotnu (ber það ekki vott um fordóma að segja útlendingar? Wink ) og fæstum þykir lakkrís góður, þeim finnst harðfiskur afar óspennandi og lykta illa og sama gildir um hangikjötið.  Það er því morgunljóst að fólk af erlendu bergi brotið hefur ekki nokkurt vit á eðalfæðu, -snakki og -sælgæti.

Það er ekki seinna vænna en fara að kenna þeim gott að..... éta.  Grin


mbl.is Íslenska nammi-útrásin hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birtingin.

Nú birtist ég aftur, nýkomin frá Portúgal.  Húsgæslan hefur verið leyst út með gjöfum.  Kötturinn er við góða heilsu og mjög feginn að réttir þjónar hans séu komnir á sinn stað.  Hann spásséraði á öllu heimilsfólki í nótt og gætti þess að hann fengi hæfilega athygli eftir svo sviksamlega og slælega frammistöðu þess síðustu tvær vikur.  Grin  Hann reyndar sá sér ekki annað fært í stöðunni en að drekkja sorgum sínum í áti og borða mánaðarskammt af eðalkattafæði á þessum tveimur vikum sem þjónarnir voru í burtu og mun líklega rorra í spiki næstu vikur.

 Öfugt við hvað fólk hefur fullyrt finnst mér portúgalir lélegri í matargerð en spánverjar og er þá mikið sagt þar sem spánverjar eru frekar slakir í þeirri list.  Það er þó auðvelt að finna staðbundna sérstaka, þar með spennandi, matargerð fyrir það svæði sem maður er á á Spáni.  Í Portúgal er þetta óttalega útvatnað og þeir réttir sem áttu að vera sérstakir, einkennandi fyrir svæðið/landið voru frekar ómerkilegir.  Þeir virðast ekki vita hvað krydd er og allt þurrsteikt svo ekki er dropi af safa eftir í kjöti eða fiski.  Það virðist vera búið að drepa allt þjóðlegt þarna í alþjóðlegri útvötnun.  Að lokum stóð einn kínverskur og einn indverskur staður upp úr.  Crying

Í Portúgal var heitt allan tímann, hitinn þetta 30-36° á selsíuskvarðanum.  Loft frekar þurrt þarna, sem er miður þar sem ég kann betur við hita og raka.  Maður náði smá hita í kroppinn, en til þess var leikurinn gerður og er það eiginlega það jákvæðasta við þessa för.  Portúgal heillar mig ekki sérstaklega og á ég ekki von á að heimsækja það land aftur.  En fólkið, portúgalir, fannst mér vinsamlegt og þægilegt fólk.

Eins og alltaf eftir dvöl í heitum suðlægum löndum er ég ákaflega glöð að koma heim aftur og anda að mér brakandi fersku svölu íslensku lofti.  Það er alveg makalaust hvað það er þreytandi að anda að sér mollulegu heitu lofti alla daga, óttalegt moðloft.  Ég skil bara ekki hvernig íbúar á suðlægum breiddum fara að þessu svo árum skiptir.  Ég mun verða ánægð með brakandi svalt loftið á Íslandi sem og veðurfarið til klukkan 15:23 á morgun.  En þá mun ég að hætti allra sannra íslendinga fara að tuða um veðrið aftur.  LoL


Hvarfið.

Nú ætla ég að taka mér pínulítið frí frá blogginu.  Ekki að ég hafi verið svo afkastamikill bloggari hvort sem er.  Það stóð aldrei til að blaðra frá sér allt vit á netinu hvort sem er.  Stöku sinnum rakst maður inn á blogg og varð að tjá sig eitthvað um það sem ritað var... en það var ekki hægt nema vera skráður bloggari, þ.e.a.s. hjá sumum bloggurum.  Það var upphaflega ástæðan fyrir að ég ákvað að gerast meðlimur í bloggi mbl.is.  En núna sem sagt er komið að smá hléi.  Ég er að fara til Portúgal á morgun og ætla að dvelja þar í tvær vikur.  Á ekki von á að eyða tímanum þar mikið á netkaffihúsum til að blogga.  Ég á örugglega eftir að sakna þess að geta ekki legið yfir nokkrum uppáhalds bloggurnum mínum:  jenfo, jonaa, gurrihar og tharfagreini svo ég nefni nokkra.  Ég á þó von á að ég nái að líta á eina og eina færslu.

En fyrst ég er að skrifa bloggfærslu á annað borð þá er gaman að nefna hluti sem allir nefna einhvern tíma á blogginu.  Til dæmis að blogga ekki undir eigin nafni.  Nú get ég til dæmis nánast áhyggjulaus nefnt að ég er að fara til útlanda þar sem þeir sem helst stunda að ræna íbúðir fólks sem er í fríi þurfa að hafa töluvert fyrir því að finna út hver ég er.  (Mér dettur ekki eitt augnablik í hug að sá hluti þjóðfélagsins sé algerlega andvaralaus um internetið).  Auðvitað er það ekki ómögulegt, en eins og ég sagði fyrirhöfn.  Það er nú reyndar ekki fyrirhafnarinnar virði, fyrir það fyrsta vegna þess að ég fékk mér húsgæslu upp á útlenska vísu og mun fólk búa í íbúðinni meðan ég er í burtu og gæta kisa og halda honum selskap.  Enda vita allir kettir með köttum að heimurinn er bara til fyrir þá og sólin snýst um þá svo það liggur í hlutarins eðli að þeir fái þjónustu á meðan þetta venjulega þjónustufólk bregður sér frá.

Svo er það hitt sem allir nefna einhvern tíma, nei bara sumir reyndar, en það er hundurinn Lúkas sem hvarf og var myrtur og haldnar kertavökur til minningar um.  Hann reis upp frá dauðum.  Slík kraftaverk gerast nú ekki á hverjum degi.  Ég var búin að óska þess hér í eldra bloggi að hann myndi finnast heill á húfi og hvað gerist, hann finnst heill á húfi fyrir utan smá styggð!!!  Eru þetta ekki merki um að ég eigi að óskblogga meira?!!!!!!!  Hvað um það, mér finnst að eigandi hundsins eigi að biðja, strákgreyið sem var ofsóttur, afsökunar og það opinberlega.  Fólk getur fullyrt eins og það vill að það hafi ekki verið henni að kenna og hún ekki upphafsmaður, það er kannski alveg rétt.  En hún tók þátt í því, mjög pent, en afar opinberlega.

Sjáumst eftir tvær vikur eða svo.


Lífið.

OldCouple

  Þau voru öll saman í stofunni.  Fullorðin hjón, dóttir þeirra og barn hennar.  Venjulegur dagur með kaffisopa að loknu dagsverki.  Mæðgurnar sátu í sitt hvorum stólnum og ræddu um landsins gagn og nauðsynjar af öryggi þeirra sem allt vita.  Það var ekkert nýtt.  Maðurinn stóð í gættinni og horfði yfir sviðið með undarlegt bros á vörum.

  Barnabarnið lék sér til hliðar.  "Amma, kondu énna!" hrópaði hann og vildi fá ömmu til að leika.  Ömmu var mikið niðri fyrir og var að ræða hástöfum eitthvað óréttlæti heimsins eins og að uppáhalds kakan í Bónus hafði hækkað tvöfalt á síðustu mánuðum og fólkið á annarri hæðinni sem var með þrjá bíla tók öll bílastæðin og óánægjan streymdi úr hljómfalli raddarinnar.

"Bíddu aðeins kúturinn minn amma er að tala við afa", sagði amma og snýr sér aftur að manni sínum og dóttur og heldur áfram að þusa af miklum móð um mikilvægustu mál dagsins og er mikið niðri fyrir.  "Amma, konda leika", segir drengurinn litli hálf brostinni röddu vonsvikinn yfir að amma skuli ekki spretta á fætur eins og allir vita að ömmur eiga að gera þegar ömmukútar kalla.

Amma snýr sér að drengum, í miðri háværri setningu, snarlækkar röddina og segir blíðlega:  "Bíddu aðeins kúturinn minn, amma er aðeins að tuða í afa" og snýr sér aftur að hinum tveimur og heldur áfram réttlætisræðunni um ranglætið af engu minni styrk en áður.  Dóttirin hlær.  "Amma þarf að taka út tuðskammtinn sinn".

Maðurinn stendur í gættinni og horfir yfir sviðið með undarlegt bros á andlitinu.  "Þetta er lífið", hugsar hann, "merkilegt að hafa ekki tekið eftir því fyrr".


Ég man þá tíð...

Einu sinni var ég barn og gekk í skóla.  Það er frekar langt síðan.  Þá var "salur" á föstudagsmorgnum og allur skólinn þuldi Faðir vor...  í kór.  Ég var ekki alin upp á heimili trúfólks og kunni ekki "Faðir vorið" vel fyrr en um 9 ára aldur.  Ég þuldi með þær setningar sem ég kunni og spáði svo sem ekkert sérstaklega í hvort maður ætti að kunna bænina eða ekki.  Skipti mig engu.  Kristinfræði var kennd fyrst í 10 ára bekk minnir mig.  Mér fannst það voða skemmtilegar sögur, biblíusögurnar.  Minnist þess ekki að þær hafi skaðað mig. 

Þó foreldrar mínir væru trúlausir þá truflaði það þau ekki að kristinfræði væri kennd og ekki heldur að námsefnið væri ekki fjölmenningarlegt.  Það var heldur ekki tíðarandinn.  Þau sögðu mér heldur ekki að ég væri trúlaus af því þau væru trúlaus.  Það var ekki trúboð í skólanum með þessari kennslu í kristinfræði.  Foreldrar mínir boðuðu heldur ekki trúleysi heima.  Trú var ekkert sérstaklega mikið rædd.  Mér var sama um hana og hún var ekki það sem brann á þeim.  Einn daginn fullyrti ég að ég tryði á Guð og annan að ég gerði það ekki.  Þannig gekk þetta fyrir sig, engum til ama.

Þegar kom að fermingu var ég spurð hvort ég vildi fermast og þá fór nokkur trúarumræða fram á heimilinu.  Ég var harðákveðin í því þá að ég væri ekki trúuð og tók upplýsta ákvörðun um að fermast samt.  Algerlega viðskiptalegs eðlis.  Þá var það bara þannig.

Þegar ég lít til baka, þá verð ég að segja að þetta var fínt, hefði ekki getað verið betra.  Enginn hvorki trúaður né trúlaus sagði mér hvað ég ætti að vera.  Ég hafði frelsi til að velja sjálf.  Þegar ég skoða þessi læti í dag vegna trúarbragðafræðslu finnst mér foreldrar vera búnir að búa sér til vandamál.  Það eru ekki börnin sem eru trúlaus og þeirra réttur að sleppa við þessarar-trúar- eða hinnar-trúarfræðslu.  Það er bara ekki kominn sá tími í lífi þeirra að þau séu fær um að mynda sér almennilega skoðun á því fyrr en fer að nálgast unglingsárin.  Það eru foreldrarnir sem eru trúlausir og boða það í nafni barnanna sinna.

Mín skoðun er sú að börn eigi að fá að leika og læra, í friði og hafa frelsi til að máta sig í skoðanirnar.  Vera trúlaus einn daginn og trúuð hinn.  Seinna taka þau örugg og sátt afstöðu í aðra hvora áttina.  Það er þá þeirra val.  Ætli það séu margir trúarhóparnir í heiminum sem veita þeim það frelsi? Nú eða trúleysingjahóparnir má eins spyrja?  Ég held að þeir séu afar fáir, því miður.  Ég þakka fyrir að hafa fengið það tækifæri.


mbl.is Mannréttindadómstóll gagnrýnir kristinfræðikennslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

krossgata
krossgata
Sérleg áhugamanneskja um krossgátur, þá sérstaklega sunnudagsgátu mbl.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 10811

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband